139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að ítreka það að í ákvörðun Hæstaréttar um að ógilda kosninguna er engin frekari leiðsögn um það hvað eigi að gera. Það er okkar að ákveða hvað á að gera. Það eru þrír kostir, kjósa aftur, hætta við stjórnlagaþingið, eins og margir hér vilja, eða halda áfram samkvæmt þeirri tillögu sem hér er gert ráð fyrir.

Ég styð þessa tillögu. Ég held að það sé besta leiðin til að halda áfram ferli sem er í raun hálfnað og það er hið lýðræðislega ferli sem við hófum, þ.e. að endurskoða stjórnarskrána með róttækum hætti í samvinnu og samstarfi og samtali við þjóðina. Við erum búin að halda þjóðfund, stjórnarskrárnefnd er að fara að skila tillögu. Nú blásum við til stjórnlagaráðs þar sem í munu sitja 25 manns sem 83 þúsund eða 85 þúsund Íslendingar kusu. Ég tel ástæðu til, í ljósi þeirra umræðna, og í ljósi 60 ára sögu vonbrigða við að reyna að endurskoða stjórnarskrána með lýðræðislegum hætti, að óska væntanlegum stjórnlagaráðsfulltrúum velfarnaðar. Sú ósk er ekki bara ósk um velfarnað heldur er þetta líka baráttukveðja. Ég held að það verði frekari hindranir á þessari leið en útlit er fyrir að við höfum blessunarlega yfirstigið eina í dag. Ég segi já.