139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hvað eftir annað hafa þær spár sem ríkisstjórnin hefur sett fram um hagvöxt ekki gengið eftir, en líklega var alvarlegasta áfallið nú um daginn þegar í ljós kom að með sama áframhaldi þyrfti að auka enn á niðurskurð, sparnað hjá hinu opinbera og að auki að mati ríkisstjórnarinnar að hækka skatta ef ekki yrði verulegur viðsnúningur á þessu ári. Hins vegar eru litlar líkur á því að það verði viðsnúningur, því miður, með þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt. Stöðnunin og samdrátturinn á sér sínar skýringar. Hér er fylgt allt annarri stefnu við að fást við vanda kreppunnar en í flestum, eiginlega öllum öðrum, vestrænum ríkjum. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Hér er í rauninni eiginlega allt gert öfugt. Skattar eru hækkaðir hvað eftir annað og skattkerfið flækt, jafnframt eru send út þau skilaboð að þetta sé bara byrjunin, skattar muni halda áfram að hækka, það sé pólitísk stefna ríkisstjórnarinnar að hækka skattana. Komið er í veg fyrir uppbyggingu á orkuvinnslu. Þjóðnýting er nefnd sem eðlileg leið fyrir ríkisstjórn til að koma málum sínum á framfæri. Eignaupptaka og þjóðnýting fyrirtækja. Menn horfa upp á það að ríkisstjórnin situr hjá í heilt ár þótt hún hefði haft tækifæri til að grípa inn í hefði hún óskað þess eins og í tilviki HS Orku og Magma-málsins, en mörgum mánuðum eftir að samningar eru frágengnir stíga ráðherrar fram og fara að viðra hugmyndir um þjóðnýtingu.

Ráðherrar skipta sér af gangi mála fyrir dómstólum, fyrir og eftir niðurstöðu dómstóla. Pólitísk óvissa er í raun orðin meiri en hún hefur nokkurn tímann verið á lýðveldistímanum á Íslandi og orðin sérstakur áhættuþáttur hjá þeim sem meta Ísland sem fjárfestingarkost. Svo er hér viðhaldið ströngum gjaldeyrishöftum. Meðan á öllu þessu gengur leyfa hæstv. ráðherrar sér að birtast aftur og aftur í fjölmiðlum og halda fram einhverju dæmalausu rugli eins og að deila við breska og hollenska fjármálaráðuneytið um túlkun á Evrópureglugerð sé að stöðva hér alla fjárfestingu þótt ekkert renni stoðum undir það. Reyndar hafa menn haldið því fram að lán hafi ekki fengist frá Evrópska fjárfestingarbankanum af þessari ástæðu. Nú hefur bankinn reyndar sagst munu lána fyrir því sem um var beðið, Búðarhálsvirkjun, en þá kemur hæstv. forsætisráðherra og segir að þetta lán sé skilyrt. Það á sem sagt að nota þetta í kosningabaráttunni um Icesave. En ef þetta er tilfellið, ef þessi stofnun Evrópusambandsins skilyrðir lán með því að Íslendingar fallist á Icesave-kröfurnar, hvernig er þá verið að nota þá stofnun og hvað segir það okkur um lögmæti þessara krafna? Og í öðru lagi, hvað hefur þá hæstv. forsætisráðherra gert til að bregðast við þessu? Forsætisráðherra hlýtur að hafa skrifað a.m.k. nokkur harðorð bréf eða hringt nokkur símtöl til að gera athugasemdir við það ef einni af stofnunum Evrópusambandsins er beitt til þess að knýja á um ákveðna niðurstöðu í Icesave-málinu.

Svo kemur hæstv. forsætisráðherra aftur og aftur hér upp og tilkynnir um að það verði sköpuð svo og svo mörg störf. Það var reyndar byrjað á þessu fyrir kosningar í auglýsingum Samfylkingarinnar þar sem lofað var, ef ég man rétt, 7.000 störfum sem lítið hefur spurst til. En aftur og aftur er það ítrekað, þannig hefur það verið í tvö ár, að fjölmörg störf séu í vændum. Ekkert gerist. Það eru ekki margir dagar síðan hæstv. forsætisráðherra talaði um 2.200–2.300 störf. Nú hefur talan verið lækkuð í 1.600–1.700 og ómögulegt að segja hvenær af þessu verður.

Hæstv. forsætisráðherra nefndi nokkra fyrirboða um betri tíð, að verðbólgan færi lækkandi. En hvers vegna lækkar verðbólgan? Það er vegna þess að hagkerfinu hefur blætt út. Það er ekki hægt að hækka verð lengur, það er enginn sem getur staðið undir því. Svo er talað um að gengið hafi styrkst. Gengið hefur veikst jafnt og þétt og mikið að undanförnu þrátt fyrir gjaldeyrishöft. Talað er m.a.s. um að byggja upp gjaldeyrisforða. Gjaldeyrisforði með lántökum er enginn forði. Reyndar er sagt að útflutningur hafi aukist til mikilla muna. Þar er líklega fyrst og fremst að þakka eða kenna krónunni sem hæstv. forsætisráðherra ætlar að leggja af en hæstv. fjármálaráðherra ætlar að hafa hér áfram til langs tíma. Ekki vitum við hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þeim efnum frekar en svo mörgu öðru. Það er vandamálið, það skortir alla stefnu. Það er endalaus biðstaða, endalausar frestanir. Það er ekki tekið af skarið um (Forseti hringir.) nokkurn skapaðan hlut.