139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að sú skýrsla sem Seðlabankinn lagði fram og ríkisstjórnin fyrir sitt leyti hefur samþykkt sé skynsamleg og yfirveguð. Þetta eru aðgerðir í skrefum og það á að hefjast handa innan fárra vikna með fyrstu aðgerðirnar en öryggisins vegna er hins vegar lagt til að það verði heimildir til þess að viðhafa í einhverjum mæli takmarkanir í allt að fjögur og hálft ár. Það er til þess að þessi áætlun sé raunsæ, framkvæmanleg og það fylgi henni trúverðugleiki.

Það er gríðarlega mikilvægt að sjálfsögðu að fara í þessar aðgerðir en um leið þarf að vera tryggt að hægt sé að framkvæma þær þannig að stöðugleiki viðhaldist, að ekki verði mikið flökt á gengi krónunnar og það þarf að haldast í hendur við vaxandi trúverðugleika og styrk í efnahagskerfinu. Fjármálastofnanirnar þurfa að vera undir það búnar að mæta áhrifum sem af þessu leiðir, t.d. á lausafé. Ríkið og helst bankar og aðrir aðilar þurfa að vera komnir með eðlilegan aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Við vitum, væntanlega bæði ég og hv. þingmaður, hvað þarf m.a. til þess. Það er margt sem þarf að falla saman til að þessi áætlun geti orðið vel heppnuð.

Varðandi nýjar fjárfestingar er þegar opið fyrir þær, engar takmarkanir á nýjum fjárfestingum inn í hagkerfið og hvorki inn né út þannig að það er ekki vandamál í þessum efnum. Að sjálfsögðu viljum sem við sem fyrst komast að öllu leyti í eðlilegt ástand í þessum efnum. Gangi allt vel er að sjálfsögðu hægt að gera sér vonir um að þessi áætlun taki skemmri tíma en af öryggisástæðum yrðu þá heimildir til staðar til að viðhalda í einhverjum mæli takmörkunum. Síðustu skrefin kæmu þá á aftari hluta áætlunartímans. En takist vel að vinna niður snjóhengjuna sem er fyrsta brýna verkefnið að losa um eða binda þær stóru krónueignir sem erlendir aðilar eiga hér upp á um 400 milljarða kr. er stórum áfanga náð. Með vaxandi trúverðugleika og batnandi stöðu í efnahagslífi okkar (Forseti hringir.) ætti ekki að vera ástæða til að hafa stórar áhyggjur af restinni.