139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mannauðsstefna.

514. mál
[17:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, hann hreyfir hér við mikilvægu máli. Reyndar er það svo að ég er með aðra fyrirspurn sem ég mun svara á eftir um mannauðsstjórnun sérstaklega sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir spyr að.

Því er til að svara varðandi mannauðsstefnu almennt, já, að sjálfsögðu vill ríkið tryggja að mannauðsstefnu sé fylgt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins. Ég kynnti ríkisstjórn minnisblað 12. nóvember síðastliðinn um áherslur í starfsmannamálum. Þær gengu síðan áfram til einstakra ráðuneyta. Þar kemur m.a. fram að við höfum í hyggju í fjármálaráðuneytinu að leggja aukna áherslu á markvissa innleiðingu aðferðafræði mannauðsstjórnunar hjá ríkisstofnunum. Í því skyni verður öllum stofnunum gert að setja sér og framfylgja heildstæðri mannauðsstefnu. Reynt verði að auka stuðning við framkvæmd starfsmannamála stofnana eins og hægt er, t.d. með áherslum á að starfsmannamálin styðji við þau markmið sem stofnanirnar hafa sett sér og eiga að starfa eftir, það sé haft eftirlit með framkvæmd stofnana í launa- og starfsmannamálum og það verði aukið, og árlega metið hvort stofnanirnar uppfylli a.m.k. lágmarkskröfur í þessum efnum, um heildstæða mannauðsstefnu.

Ef við förum aðeins yfir hvaða hlutverki mannauðsstefnu er ætlað að þjóna. Það er auðvitað þetta sem ég nefndi, að stuðla að því að heildarstefnu stofnananna sé náð fram, ekki síst í gegnum það að skapa starfsmönnum góð starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi sínu.

Meginþættir mannauðsstefnunnar eins og þeir hafa verið skilgreindir eru í fyrsta lagi skipulagning og stefnumótun, þ.e. að það taki til skipulagningar og útfærslu mannauðsmála í samræmi við verkefni hverrar stofnunar. Í öðru lagi ráðninga- og launamál, að verkefnaáætlun, mannaflaþörf og starfsmannavelta séu þættir sem stofnanir þurfa að yfirfara og taka mið af í sambandi við ráðningar, að launastefnuna ætti að yfirfara minnst árlega. Undir hana falli launaáætlun, kynjuð hagstjórn, kjarasamningar og launavinnsla, stofnanasamningar og ráðningarsamningar o.s.frv.

Móttaka nýliða er mikilvægur meginþáttur í mannauðsstefnu. Það felur í sér að það sé með skipulögðum hætti undirbúið að taka á móti nýjum starfsmönnum. Það sé nýliðafræðsla. Menn notist við nýliðahandbók, auk þess sem gerð sé grein fyrir fóstrakerfi hjá þeim stofnunum sem það nota.

Starfsþróun hvers og eins er sömuleiðis mikilvægur þáttur mannauðsstefnu og starfsgreining, sem er gerð með það að markmiði að flokka störf sem unnin eru innan stofnunar. Þannig fæst yfirlit yfir það hvort rétt samsetning sé á störfum miðað við verkefni stofnunar. Starfslýsingar koma þá í framhaldi af starfsgreiningu. Þær lýsa meginverkefnum starfsins og hvers konar menntun og reynsla er nauðsynleg til að sinna verkefnum viðkomandi starfa vel.

Starfsmannasamtal sé haldið árlega, þ.e. undirbúið trúnaðarsamtal starfsmanns og næsta yfirmanns hans þar sem farið er yfir verkefni, líðan og starfsþróun starfsmannsins. Starfsþróunaráætlun viðkomandi starfsmanns getur verið afurð af slíku starfsmannasamtali en í henni kæmi þá fram útlistun á því hvernig viðkomandi starfsmaður ætlar sér að efla og þróa og viðhalda þekkingu sinni og hæfni.

Vinnuskilyrði eru sömuleiðis hluti af mannauðsstefnunni. Þar er farið yfir starfsaðstæður, gildi stofnunar, siðareglur, starfsánægju, með hvaða hætti stofnunin ætlar sér að tryggja samþættingu vinnu og fjölskyldu, framsetning jafnréttisáætlunar og hvernig eigi að tryggja að jafnrétti sé framfylgt innan stofnunar.

Ákvæði um einelti og hvernig tekið er á þeim málum innan vinnustaðarins, forvarnaáætlun og viðbragðsáætlun ef upp kemur einelti innan stofnunar. Allt þarf þetta að vera hluti af heildstæðri mannauðsstefnu.

Loks má nefna og ekki síst að starfslok, að stofnanir séu vel undir það búnar og tryggi með skipulegum hætti að starfslok fari fram með eins vönduðum og góðum hætti og kostur er. Þannig séu t.d. viðhöfð starfslokasamtöl, það sé rætt sérstaklega við þá starfsmenn sem stefnir í að hætti störfum. Með því fást upplýsingar t.d. um ástæður uppsagnar ef starfsmaður hyggst segja upp starfi og æskilegt er að stofnanir séu hvattar til þess að hafa sérstakar reglur um starfslokaferil þannig að tryggt sé að staðið sé með réttum hætti að starfslokum starfsmanna.

Þetta hangir að sjálfsögðu líka nokkuð saman við réttindi og skyldur hinna opinberu starfsmanna, þannig að ljóst er að (Forseti hringir.) liður í framþróun þessara mála verður væntanlega að þætta þetta inn í endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.