139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:00]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki kynnt mér sérstaklega átak hjá Lýðheilsustöð varðandi íþróttahreyfinguna síðan ég kom í þetta embætti. Aftur á móti er mér kunnugt um að íþróttahreyfingin sjálf hefur barist mjög hatrammlega gegn áfengisnotkun og tóbaksnotkun í tengslum við íþróttir og raunar gert átak í sambandi við almenna heilsu íþróttamanna. Ég tel það afar mikilvægt og jákvætt.

Samstarf hefur verið á milli Lýðheilsustöðvar og íþróttahreyfingarinnar í mörgum málum. Menn hafa gefið út sameiginleg plaköt, dregið fram fyrirmyndaríþróttamenn sem hafa lýst því yfir að þeir séu reyklausir og noti ekki vímuefni eða áfengi. Einnig hefur verið mjög víðtæk barátta í grunnskólum um að hafa reyklausa skóla eða reyklausa bekki. Allt þetta skiptir miklu máli. Það hefur stundum skotið skökku við að kennararnir (Forseti hringir.) hafa verið að nota munntóbak á sama tíma og tóbakið er að öðru leyti bannað.