139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna áðan og þann áhuga sem hann hefur sýnt málinu, ekki bara við þessa umræðu heldur líka við 2. umr. Ég upplifi það hins vegar svolítið þannig að með tali sínu ali hann á ótta starfsmanna hjá stofnuninni um að þeim verði sagt upp á næsta ári. Ég held að það sé algjör óþarfi. Eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir kom inn á áðan er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að starfsmönnum verði sagt upp heldur verður öllum boðin vinna. Við vitum af því að með fækkun yfirmanna hjá nýrri stofnun verður væntanlega einhver hagræðing. Það verður aðeins einn forstöðumaður og með því sparast fjármunir.

Af því að þingmaðurinn nefnir húsnæðið langar mig að spyrja hvort honum hefði þótt skynsamlegra að hafa stofnanirnar áfram hvora í sínu húsnæðinu og standa þannig allri framþróun þessarar nýju stofnunar fyrir þrifum með því að velja ekki frekar að sameina þær á einum stað. Á að láta handónýtan gamlan húsaleigusamning eyðileggja fyrir framtíðarmöguleikum stofnunarinnar?