139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Á þessum dögum eru liðin rétt um tvö ár frá því að upp komst um styrki til Sjálfstæðisflokksins frá þekktum stórfyrirtækjum í landinu. Það gerðist með þeim hætti að í lok mars 2009 birti Ríkisendurskoðun lögum samkvæmt útdrátt úr ársreikningum íslenskra stjórnmálaflokka og kom þá í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hafði þegið háa styrki frá fyrirtækjum sem stangaðist á við gildandi lög um fjármál fyrirtækja.

Í kjölfarið fór fram frekari skoðun á fjármálum Sjálfstæðisflokksins og kom þá í ljós að flokkurinn hafði þegið styrki frá stórfyrirtækjum upp á tugi milljóna króna. Flesta þá styrki hafði flokkurinn fengið inn á reikninga sína nokkrum dögum áður en ný lög um fjármál stjórnmálaflokka tóku gildi en þau lög takmörkuðu mjög heimild stjórnmálaflokka til að þiggja styrki af þessu tagi.

Svo furðulegt sem það kann að hljóma vildi enginn úr forustu flokksins eða starfsliði hans kannast við að hafa beðið um eða tekið við umræddum styrkjum en á endanum sté þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Hilmar Haarde, fram og tók á sig skellinn fyrir flokkinn eins og hann hafði reyndar oft gert áður.

Í kjölfar þessara uppljóstrana lýsti núverandi formaður flokksins því yfir að styrkirnir yrðu endurgreiddir upp í topp, hver einasta króna, reyndar vaxtalaust, á allmörgum árum. Vegna þeirra tímamóta að nú eru tvö ár liðin frá því að upp um þetta komst vil ég spyrja hv. þm. og varaformann Sjálfstæðisflokksins Ólöfu Nordal hvernig staðið hefur verið að endurgreiðslunni, hvernig gengið hafi að endurgreiða þessa styrki, hve mikið standi eftir af styrkjunum og hve háar eftirstöðvarnar eru. Og hvert fer endurgreiðslan? Flest þessara fyrirtækja eru gjaldþrota í dag og féllu í hruninu eins og Landsbanki Íslands o.fl. Er verið að greiða þetta inn í þrotabú þessara fyrirtækja eða með hvaða hætti fer endurgreiðslan fram? Kannski að lokum: Værir ekki rétt af Sjálfstæðisflokknum að birta opinberlega upplýsingar um það hvernig þessum málum er háttað, (Forseti hringir.) hvernig gangi að endurgreiða styrkina, þannig að fólk geti þá fylgst með því að það sé gert með þeim hætti sem lýst hefur verið yfir?