139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:03]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að í umræðu um framtíð innanlandsflugsins sé skylda okkar á þinginu að finna þá leið sem skilar samfélaginu mestum þjóðhagslegum ábata en tekur jafnframt tillit til mismunandi þarfa og hagsmuna landsbyggðar og höfuðborgar.

Í vandaðri skýrslu samráðsnefndar frá 2007 kom fram að það mundi skila samfélaginu miklum ábata að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýri. Var niðurstaðan sú að þrír kostir; flugvöllur á Hólmsheiði, flugvöllur á Lönguskerjum eða flutningur innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar, hefðu í för með sér þjóðhagslegan ábata á bilinu 33–38 milljarðar kr. Niðurstaðan var sú að nýr flugvöllur á Hólmsheiði skilaði mestum ábata og hefði tiltölulega lítinn viðbótarkostnað í för með sér fyrir landsbyggðina en eins og fram hefur komið í umræðunni kallar sá kostur, sem og flugvöllur á Lönguskerjum, á talsvert miklar viðbótarrannsóknir á veðurfari, umhverfisáhrifum o.s.frv.

Í mínum huga hníga mörg skynsemisrök að því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og nýta þær samgöngubætur sem gerðar hafa verið á Reykjanesbraut á undanförnum árum. Helsti gallinn við þann flutning er kostnaðaraukinn sem mundi lenda á íbúum landsbyggðarinnar. Í skýrslunni var hann metinn á tæpa 6 milljarða kr. og þyrfti sannarlega að mæta með sérstökum mótvægisaðgerðum, t.d. niðurgreiðslum á farþegagjöldum eða hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkur.

Ábatinn af því að losa flugvöllinn úr miðborginni felst ekki síst í hinu verðmæta byggingarlandi í Vatnsmýrinni sem mundi skapa 15 þúsund borgarbúum heimili á besta stað í borginni og skapa land fyrir 300–400 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði sem yrði vettvangur 5–7 þúsund starfa. Slík þétting byggðar í miðborginni hefði í för með sér jákvæð umhverfisáhrif og orku- og aksturssparnað sem metinn hefur verið á rúma 2 milljarða kr. á ári. Þarna mætti skapa skilyrði fyrir fjölbreytta, vistvæna atvinnustarfsemi og vísindastarf sem mundi búa Reykjavík umgjörð sem vistvæn höfuðborg í fremstu röð.

Niðurstaðan er skýr: Við getum notað Vatnsmýrina á skynsamlegri (Forseti hringir.) hátt en undir flugvöll. Fjölbreytt uppbygging á því svæði er innspýting fyrir hagkerfið sem hleypur á tugum milljarða kr.