139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:05]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég hef fullan skilning á rökum þeirra sem kvarta yfir því að hafa flugvöllinn í Reykjavík, nálægt sinni byggð. Ég skil rök þeirra sem segjast líða fyrir hávaðann sem fylgir flugvélum. (Gripið fram í.) Ég skil að fólk hafi áhyggjur af öryggissjónarmiðum þegar flug er yfir byggð. Ég get skilið rök eins og hér hafa komið fram um að flugvöllurinn í Vatnsmýri eyðileggi skipulag borgarinnar og hægt sé að nýta landið með öðrum hætti. Ég get alveg skilið þessi rök sem og þau rök að ónæði sé af flugumferð, af umferð vegna fólksflutninga og aðflutningum til og frá flugvelli. Ég get skilið rökin sem hér hafa verið færð fram en tek ekki sérstaklega undir þau.

Ég skil líka þau rök að þeir sem búa hér vilji líka njóta ávaxtanna af því að hafa flugvöllinn í Reykjavík og aðflutninginn til og frá Reykjavík. Reykjavík er miðstöð landsins, ekki bara suðvesturhornsins heldur landsins alls. Þeir sem búa í Reykjavík hafa umtalsverðan hag af því að hafa völlinn þar. Í Reykjavík fer öll stjórnsýslan fram, þar eru stærstu heilbrigðisstofnanirnar eins og oft hefur verið um rætt, nánast allur innflutningur og útflutningur fer fram í gegnum Reykjavík. Og aðkoma allra íbúa landsins að þessari miðstöð þarf að vera góð. Ég skil þau rök að þeir sem búa í Reykjavík og finnst óþægilegt að hafa flugvöllinn í nánasta umhverfi vilji njóta ávaxtanna af því sömuleiðis. Það sem ég er að segja er að ekki verður bæði haldið og sleppt í þessu sambandi.

Á meðan Reykjavík er miðstöð fyrir þjónustu fyrir allt landið verða íbúar Reykjavíkur einfaldlega að þola það ónæði sem kann að stafa af því að hafa landsbyggðartútturnar rápandi um flugvöllinn annað slagið, menn verða bara að þola það að (Forseti hringir.) einhver umferð sé um flugvöllinn því það eru fyrst og fremst Reykvíkingar sem njóta hags af því að hafa flugvöllinn á þessu svæði. Reykjavík er (Forseti hringir.) miðstöð landsins og við eigum öll að eiga jafnan aðgang að henni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)