139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er dapurlegt þegar lífssýn fólks og stefna mótast af neikvæðum þáttum, eins og núverandi ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar, hv. þingmanna, sem lifa á því að vera á móti Sjálfstæðisflokknum. Þau hafa enga stefnu sjálf, vilja ekki beita þjóðfélaginu í þessa eða í hina áttina, nei, það sem heldur þeim saman og tengir þau er andúðin á hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Nú kemur sem sagt hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og segir að kerfið í Bandaríkjunum sé svo svakalega slæmt. Þar sem kerfið í Bandaríkjunum er svo voðalega slæmt — aftur neikvæð mynd — er allt annað ómögulegt. Það er nefnilega heilmikil einkavæðing til á Íslandi í heilbrigðiskerfinu. Ég man ekki betur en gamli heimilislæknirinn sem var með læknastofu sína einhvers staðar í kjallara eða á 1. hæð hafi starfaði á eigin reikning. Það var bara þannig. Heilmikið af kerfinu í dag er sem betur fer einkavætt. Það er það líka á fleiri stöðum — öryggisgæslan, ég nefndi Securitas, er einkavædd. Ég minnist þess alltaf að þegar brotist var inn hjá lögreglunni þar sem þeir geyma týnda muni var kallað á Securitas til að vakta húsið eða þeim boðið að vakta það. Það er heilmikil einkavæðing í gangi í heilbrigðiskerfinu. Það er alls ekki víst að það kerfi sé alvont. Ég held að ákveðið samspil beggja kerfa sé ágætt og ég get alveg stutt það. En ég vil ekki sjá að heilbrigðisráðherra ákveði hvaða augu ég megi fá ef ég fer í augnsteinaaðgerð eða eitthvað slíkt, það vil ég ekki.