139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi með breytingartillögu meiri hluta efnahags- og skattanefndar. Árið 1995 voru innleiddar hér á landi sjúkratryggingar og í 15 ár var því svo háttað að þeir sem fengu útgreiðslur úr slíkum tryggingakerfum þurftu ekki að borga skatt af þeim, þær voru ekki skattlagðar. Í desember á síðasta ári féll dómur sem leiddi í ljós að allan tímann hefðu útgreiðslur átt að vera skattlagðar þannig að héðan í frá yrðu þær skattlagðar.

Frumvarpinu var í upphafi ætlað að tryggja skattfrelsi allra sem höfðu keypt sjúkratryggingar fyrir 1. desember 2010. Í meðförum nefndarinnar sammæltust hins vegar stjórnarandstaða og meiri hluti stjórnarþingmanna um að gera þá breytingu að þessi breyting yrði ótímabundin og héðan í frá yrði þetta ekki skattað. Vinstri grænir áttu erfitt með þetta mál. Við heyrðum hér ágætlega sjónarmið fyrrverandi þingflokksmeðlims Vinstri grænna, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og áhyggjur sem þær lýsa yfir, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir orðaði svo ljómandi vel að verið væri að teppaleggja fyrir tvöfalt kerfi. Báðar nefndu þingkonurnar reynslu Bandaríkjanna og fleira.

Þess ber að geta að þetta tryggingakerfi hefur verið við lýði í yfir 15 ár og hefur ekki leitt til tvöfalds heilbrigðiskerfis, það sárasaklausa atriði að fólk geti keypt sér sjúkdómatryggingu og ef eitthvað kemur upp á fái það eingreiðslu sem það getur notað til að standa straum af sárustu erfiðleikunum sem verða eftir mikla sjúkdóma.

Jafnframt kom fram í andsvari áðan sá misskilningur hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur að það væru efnaðir einstaklingar sem mundu sækja í þessar tryggingar, þetta væri mismunun gagnvart þeim efnaminni. Ég bað hv. þingmann um að benda mér á heimildir fyrir því og hún benti mér vinsamlegast á að þetta hefði gerst t.d. í Bandaríkjunum, að þar væru það frekar efnaðir einstaklingar sem keyptu sér svona tryggingar. Nú er það svo að í Bandaríkjunum er algerlega sérstakt kerfi sem byggir að mjög miklu leyti á einkareknu kerfi þar sem fólk kaupir sér trygginguna sjálft og í Bandaríkjunum er ekki það velferðarkerfi sem við búum við hér á landi.

Í gegnum áratugina hafa þjóðir reynt eftir fremsta megni að bæta heilbrigðisþjónustu sína með ýmiss konar breytingum, til að mynda með því að sleppa einhverjum hluta hennar yfir til einkageirans, bjóða hana út og hitt og þetta. Engin dæmi eru um það í veraldarsögunni að horfið hafi verið frá því að vera með kerfi svipað og er á Íslandi, sem tryggir öllum jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfi, og farið yfir í bandaríska kerfið. Bandaríska kerfið hefur aldrei þróast yfir í það að vera eins og hjá okkur. Að vísu hafa verið gerðar einhverjar tilraunir til þess með nýjum forseta, Obama, en það hefur mætt mikilli mótspyrnu í Bandaríkjunum.

Mig langaði aðeins til að minnast á þá fullyrðingu að þetta væri frekar fyrir tekjuhátt og ríkt fólk heldur en hina efnaminni og þar af leiðandi skapaði þetta mismunun. Nú er það svo að sjúkdómatryggingar henta ekki efnuðum einstaklingum, þær tryggingar sem henta þeim eru mun frekar sparnaðartryggingar. Í þeim eru skattaívilnanir vegna þess að sparnaðartryggingar eru eða voru undanþegnar eignarskatti, þær eru undanþegnar nýja eignarskattinum, auðlegðarskattinum, þannig að það hentar betur efnamiklum einstaklingum. Jafnframt þurfa efnaðir einstaklingar, eins og ég benti á í andsvari áðan, ekki allir svona tryggingu vegna þess að oft og tíðum eru þeir ekki á vinnumarkaði. Aftur á móti getur fátækt fólk, fólk með millitekjur, fólk sem skuldar mikið og barnmargt fólk haft borð fyrir báru með tryggingu sem þessari. Þetta er akkúrat öfugt við það sem þingmenn Vinstri grænna og fyrrverandi þingflokksmeðlimur Vinstri grænna sögðu í umræðunni í dag. Sjúkdómatryggingar gagnast hinum efnalitlu, fólk getur haft borð fyrir báru sem leiðir til þess að það þarf ekki að vera eins áhyggjufullt ef eitthvað kemur upp á.

Ég endurtek að lokum að ég fagna mjög þessu frumvarpi með breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar. Þetta er sanngjarnt og mun koma öllum til góða. Þetta er klassískt dæmi um mál þar sem hægt er að takast í hendur og hjálpa stjórnarflokkunum með hlutina í gegn.