139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:32]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti svarað þessari spurningu með nokkuð meiri vissu en hinni fyrri. Ég veit fyrir víst að bankarnir hugsuðu sér að bæta við starfsemi sína þannig að þeir skilgreindu tryggingastarfsemi sem fjármálaþjónustu, sem hún er, og partur af því að víkka þjónustu við viðskiptavini var að bjóða þeim upp á tryggingar. Meira að segja var það þannig að þegar menn tóku lán gátu þeir tikkað á eitthvert box og þá tryggðu þeir sig fyrir greiðslufalli ef þeir veiktust eða eitthvað slíkt, sem ég held reyndar að sé mjög sniðugt dæmi.

Hvort það er slæmt að bankarnir, eins og kannski vottaði fyrir í spurningu hv. þingmanns, hafi útvíkkað þá þjónustu sem þeir buðu upp á eða ekki, ég skal ekki leggja neinn sérstakan dóm á það en við fyrstu sýn hljómar það ágætlega að hægt sé að sækja ýmsa fjármálaþjónustu á sama stað.

Síðan er svo annað mál. Af því að þingmaðurinn hefur mikinn áhuga á tryggingum get ég sagt henni frá einni tegund trygginga sem væri miklu verðugra fyrir hana að berjast á móti. Það eru sparnaðarlíftryggingarnar sem var verið að selja fátæku fólki, sparnaðarlíftryggingar sem eru hannaðar fyrir hina efnameiri. Þeim var troðið upp á þá efnaminni og þar er kannski verðugan andstæðing fyrir hv. þingmann að finna.