139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:06]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Hef ég djúpa sannfæringu fyrir því að þetta frumvarp nái markmiðum sínum? Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að hér séum við að stíga mikilvægt skref í átt að því markmiði, já.

Við búum við þá staðreynd í dag að ríkisstjórn gaf út yfirlýsingu til þess að 1. mgr. 1. gr. yrði uppfyllt í hugum innstæðueigenda. Ég held að það sé ekki ákjósanlegt að ríkið sitji uppi með þá yfirlýsingu um alla framtíð. Ég tel mikilvægt að við leitum leiða til að komast út úr henni. Ég tel að við eigum að færa þetta hlutverk frá ríkisvaldinu, frá almenningi, til bankastofnananna, til innstæðueigendanna sjálfra. Ég vil færa ábyrgðina af því að innstæðueigendum séu tryggðar innstæður sínar til bankastarfseminnar sjálfrar. Við gætum þannig losnað við þann vanda sem oft hefur verið kallað upp á enska tungu „moral hazard“ (freistnivandi) þannig að það sé á ábyrgð innlánsstofnananna sjálfra að bæta innstæðueigendum það tjón sem þeir geta orðið fyrir falli innlánsstofnun.

Ég rakti það í máli mínu áðan og mun gera það betur á eftir að það er ekki hægt að ætlast til þess að sjóðurinn standi á bak við áfall ef einn af okkar stóru viðskiptabönkum fellur. Við höfum aðrar leiðir til að tryggja að svo fari ekki. Ríkið mun eflaust ætíð koma til varnar innstæðueigendum beri svo undir vegna þess að það kemur til með að hafa gríðarleg efnahagsleg áföll ef einn af okkar þremur stóru bönkum fellur og innstæðueigendur glata fjármunum sínum. Ríkið mun aldrei láta til þess koma, það mun alltaf grípa inn í.

Ég held hins vegar að það sé mikilvægt gagnvart t.d. minni fjármálafyrirtækjum að þau búi ekki við þá vernd og að það sé þá innstæðutryggingarsjóður sem sinni því hlutverki sem ríkið hefur með höndum í dag við að tryggja innstæður þeirra.