139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Veruleikinn sem við horfum fram á er þessi: Við núverandi stöðu lítur ríkisstjórn Íslands svo á að hún sé skuldbundin að koma bankastofnunum til hjálpar með því að tryggja hagsmuni innstæðueigenda. Ríkisstjórnin gefur yfirlýsingu þess efnis og þess vegna lítur hún svo á að hún sé skuldbundin til þess. Það er í raun og veru veruleiki málsins, við komumst ekki fram hjá honum.

Við ætlum að reyna að bregðast við þeirri stöðu með því að búa til plan B sem er innstæðutryggingarsjóður og reyna að safna inn í hann fjármunum hratt og örugglega til að hann geti í fyllingu tímans, kannski eftir átta, tíu, tólf ár staðið að baki ef einhver af hinum stóru bönkum eða minni fjármálastofnunum falla. Þess vegna mun ríkið koma til hjálpar. Hvort sem yfirlýsingin er lögleg eða ekki, hvort sem hún er réttmæt eða ekki, hvort sem hún er röng eða rétt, er veruleikinn sá að hún stendur og allir aðilar málsins túlka það þannig. Við þeirri stöðu verður að bregðast.