139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:59]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það að í nefndinni hefur farið fram mjög mikil og góð vinna við frumvarpið eins og ég hef tekið fram hér ítrekað í dag. Ég vil þakka hv. formanni fyrir hans tillegg og innlegg í þá vinnu. Ég er honum sammála um það að okkur veitti ekki af þeim tíma og þess vegna taldi ég það algjörlega óhæft á síðustu metrunum að ekki væri tóm til þess að spyrja einfaldra spurninga eða ræða einstök efnisatriði.

Ég hlýt að segja það hér í þessum stól að eftir að ráðherrar, hvort heldur er hæstv. umhverfisráðherra eða aðrir ráðherrar, hafa skilað frumvörpum hér inn til Alþingis eru þau í meðferð Alþingis. Ef pressa er á að koma þeim út er það pressa á Alþingi, sem er ekki viðeigandi að mínu viti, og mér hefði aldrei dottið í hug að leita skýringa á því hjá öðrum en formanni viðkomandi nefndar eða forseta þingsins.