139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:55]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin við fyrirspurn minni. Ég tek undir það sem hv. þingmaður hefur sagt að frumvarpið byggir auðvitað á tilskipun sem er miklum mun verri varðandi hagsmuni okkar Íslendinga en sú sem henni er ætlað að leysa af hólmi. Í tilskipuninni er gengið miklu lengra í þá átt að reyna að fella ábyrgð ríkisins á skuldbindingar þeirra tryggingarsjóða og tryggingakerfi sem tilskipunin mælir fyrir um að verði komið upp í aðildarríkjum EES-samningsins. Þetta er auðvitað sjónarmið sem vert er að fara yfir og það er líka rétt hjá hv. þingmanni að í allri umræðu um málið skortir á, bæði frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem flytur málið og hv. þingmönnum stjórnarliðsins sem mæla fyrir því og berjast fyrir því að málið sé samþykkt, að útskýra fyrir okkur hinum sem ekki skiljum það hvernig í ósköpunum þetta tryggingakerfi sem frumvarpið mælir fyrir um á að ganga upp. Í umræðunni hafa hv. þingmenn aldrei getað útskýrt fyrir þingheimi, hvað þá þjóðinni, hvernig kerfið eigi að ganga upp og tryggja þá vernd sem að er stefnt í 1. gr. frumvarpsins. Það skortir algerlega á þetta í málinu.

Þar við bætist að hæstv. fjármálaráðherra hefur í svörum sínum við fyrirspurnum hv. þingmanna farið mjög gáleysislega almennt með ábyrgð ríkisins á starfsemi viðskiptabankanna. Það er sérstakt skoðunaratriði sem verður tekið til frekari umfjöllunar síðar.