139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, efling forvarna o.fl.

597. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra út í heilsustefnu, en fyrir þá sem ekki þekkja til var hún unnin frá júlí 2007 og kynnt í nóvember 2008. Þetta er forvarnastefna. Þar er lögð sérstök áhersla á geðrækt, næringu og hreyfingu. Það liggur gríðarlega mikil vinna að baki stefnunni og undirbúningurinn var þríþættur:

1. Fyrst voru greindar helstu aðgerðir á sviði lýðheilsu hérlendis og helstu stefnur og framkvæmdaáætlanir í nágrannalöndunum, auk þess sem horft var til áhersluatriða erlendra stofnana eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar í lýðheilsumálum.

2. Byggt var á reynslu Íslendinga en auk þess var stuðst við erlend gögn og skýrslu alþjóðastofnun um lýðheilsu.

3. Aðgerðaáætlun var unnin með víðtæku samráði þar sem leitað var eftir áliti flestra þeirra sem málið varðar. Í því ferli voru haldnir fundir með fulltrúum stærstu sveitarfélaga landsins, fulltrúum verslunar og þjónustu og iðnaðar. Einnig var fundað með fulltrúum stéttarfélaga, frjálsra félagasamtaka, háskóla og fagstétta. Sjónarmið þeirra og áhersla voru mikilvægt innlegg í mótun aðgerðaáætlunarinnar.

Niðurstaðan var 11 markmið með 30 aðgerðum sem flest voru mælanleg þannig að ekki yrði einungis um það að ræða að hér yrði eitthvað sem mundi síðan bara hverfa, heldur að við gætum fylgst með því hvernig gengi hjá okkur. Við vitum að ástandið er mjög alvarlegt, við erum fjórða feitasta þjóð í heimi. Það er því mikilvægt sem aldrei fyrr að fylgja þessum málum eftir.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra um hvernig gengið hefur að vinna að hverju markmiði fyrir sig. Ég spyr beint út í þessar 30 aðgerðir. Hvernig hefur gengið við eftirfarandi þætti:

a. að funda með 50% af heilsugæslustöðvum og sveitarfélögum á landinu til að efla forvarnir og heilsueflingu í heilsugæslu og sveitarfélögum landsins,

b. að fræða starfsfólk 25% heilsugæslustöðva um geðheilbrigði og geðrækt til að efla þekkingu á meðal heilbrigðisstarfsmanna í heilsugæslunni,

c. að auka færni fagfólks á fyrstu stigum heilbrigðisþjónustu til að styðja foreldra í uppeldishlutverkinu með því að tryggja að allar heilsugæslustöðvar hafi fengið námskeið og ráðgjöf varðandi jákvætt uppeldi,

d. að tryggja að uppeldisfræðsla verði orðin hluti af almennri heilsuvernd barna,

e. að safna 4 milljónum króna til aðstoðar þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu,

f. að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fari að nota ávísun á hreyfingu?

Þetta hljómar örugglega svolítið snubbótt því að (Forseti hringir.) að baki hverri spurningu er mikil hugsun, en ég spyr til þess að við getum áttað okkur á stöðunni.