139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, efling forvarna o.fl.

597. mál
[17:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er nú ekki alveg sammála honum um að heilsustefnan hafi ekki verið gefin út. Þó að það væri ekki í miklum skrautpappír var þessi aðgerðaáætlun svo sannarlega gefin út en skýrt tekið fram að þetta væri fyrsti þátturinn. Því miður kemur það fram í svörum hæstv. ráðherra að þessi markmið hafa ekki náðst sem flest áttu að vera í lok árs 2009 og/eða að það hefur ekki verið mælt hvernig þetta hefur gengið.

Ég heyrði á hæstv. ráðherra að hann teldi að skynsamlegra hefði verið að nýta starfsmenn í annað og vil því geta þess að þegar kemur að hlutum eins og þessum er vandinn sá að við vitum ekki hvernig staðan er vegna þess að við höfum ekki mælt hana. Það er margsannað að það borgar sig að vera með mælingar og rannsóknir, þannig náum við árangri.

Það er svo sem ekki við hæstv. ráðherra að sakast, hann er tiltölulega nýkominn í embætti. En því miður er augljóst að þessum þáttum hefur ekki verið fylgt eftir eins og lagt var upp með og er það mjög miður — ekki fyrir þann sem hér stendur heldur fyrir landsmenn. Þetta er einmitt markhópurinn — allir landsmenn — og það er ljóst, og það eiga allir að vita sem koma að heilbrigðismálum, að mesti sparnaðurinn næst með því að koma í veg fyrir sjúkdóma. Til að koma í veg fyrir sjúkdóma verðum við að vinna skipulega að forvörnum og til þess var lagt upp með þetta.

Ég mun hvetja hæstv. ráðherra áfram til að fylgja þessu eftir. Ef menn telja að hægt sé að koma með betri stefnu en þessa er það sjálfsagt. En aðalatriðið er að menn vinni skipulega að forvörnum í landinu og þar er hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra í lykilhlutverki.