139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, opnun vefsíðu o.fl.

598. mál
[17:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er áfram að spyrja um heilsustefnuna. Eins og ég gat lítillega farið yfir í hinum stutta formála mínum hér áðan er hún þannig upp byggð að hún er með markmið og aðgerð og síðan bera ákveðnir aðilar ábyrgð á því að aðgerðinni verði hrundið í framkvæmd. Markmiðin eru í flestum tilfellum mælanleg og ég er að spyrja hér út í einstök atriði til að við áttum okkur betur á stöðunni og það er heldur ekkert leyndarmál að ég er að vekja athygli á málefninu. Við höfum nokkrar leiðir til þess hv. þingmenn og ég er að vonast til að þetta muni ýta undir það að við ræðum þessi alvarlegu mál.

En eins og komið hefur fram erum við í 4. neðsta sæti, 20% af Íslendingum eru offitusjúklingar. Það eru bara Malta, Írland og Bretland sem standa verr að vígi. Ef við skoðum nágrannalöndin, sem við berum okkur oftar saman við, eru helmingi færri hlutfallslega í Noregi, í Svíþjóð og í Danmörku — í Finnlandi eru það að vísu 15,7%, ekki 27% eins og hjá okkur.

Við vitum að það er ekkert nýtt undir sólinni. Allt það sem var unnið á sínum tíma var unnið af bestu hugsanlegu sérfræðingum vegna þess að þeir þekktu til. Við skoðuðum hvað gert hefur verið í öðrum löndum, eins og kom fram, og þetta er niðurstaðan af þeirri vinnu.

Ég ætla að spyrja um nokkur atriði í viðbót:

Hvernig hefur gengið að ná fram eftirtöldum markmiðum sem eru sett fram í heilsustefnu ráðuneytisins frá 2008:

a. að opna vefsíðu þar sem finna má fróðleik um heilsu frá fagfólki og tryggja að hún verði komin í gagnið í lok árs 2009 og upplýsingum um notkun safnað saman svo hægt verði að setja framtíðarmarkmið um fjölda heimsókna á dag,

b. að taka upp lýðheilsumat þannig að gert verði lýðheilsumat á öllum málum sem heilbrigðisráðherra leggur fram á Alþingi,

c. að leita leiða í samvinnu við verslanir og framleiðendur matvæla til að draga úr salti, sykri, mettaðri fitu og transfitusýrum í matvælum og tryggja að dregið hafi úr salti í brauðmeti í lok árs 2009,

d. að setja reglur um hámarksmagn transfitusýra í matvælum fyrir lok árs 2010,

e. að vinna að því að hollari vörur verði staðsettar á áberandi stöðum í verslunum og að tryggja að 100% þátttaka matvöruverslana hafi náðst í lok árs 2009,

f. að vinna að því að grænmeti, ávextir og aðrar hollustuvörur verði til sölu í þeim íþróttamannvirkjum og sundstöðum sem selja matvæli og að þátttaka rekstraraðila íþróttamannvirkja og sundstaða verði 100% í lok árs 2009?

Virðulegi forseti. Ég bíð spenntur eftir svörum hæstv. ráðherra.