139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, íþróttamót í framhaldsskólum o.fl.

601. mál
[18:36]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er fimmta og síðasta fyrirspurnin um framkvæmd heilsustefnu og eflingu forvarna frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Þar kallar hann eftir upplýsingum um hvernig fylgt hafi verið eftir framkvæmdahluta stefnunnar frá 2008. Þar er í fyrsta lagi a-hlutinn, hvort menn hafi komið á fót íþróttamótum í framhaldsskólum í samvinnu við félög framhaldsskólanema, menntamálaráðuneytisins og ÍSÍ þar sem stefnt var að 100% þátttöku meðal framhaldsskóla í lok árs 2009. Svarið er að menntamálaráðuneytið hefur haft umsjón með íþróttavakningu framhaldsskólanna sem haldið hefur verið tvisvar og verður fram haldið á næsta skólaári en féll niður í vetur. Verkefnið er unnið í tengslum við HOFF-verkefnið sem við minntumst á áðan. Haldin hafa verið íþróttamót og ýmislegt gert til að hvetja til hreyfingar. Yfir 10 þúsund nemendur hafa tekið þátt í þessum verkefnum. Vitað er að margir skólar halda slíka íþróttadaga eða opna daga þar sem menn hafa jafnvel tækifæri til að leika sér saman fremur en að það séu bein íþróttamót. Þar er almenn hreyfing sem skiptir jafnmiklu máli skipulögð hreyfing.

Varðandi b-lið, að í lok árs 2010 hafi þeim fækkað sem nota vímuefni og reykja, er svarið er að þeim hefur fækkað mikið sem reykja, miðað við árslok 2010 en ekki eru til tölur fyrir árið 2009. Tóbakslausir framhaldsskólar eru verkefni sem unnið hefur verið að frá árinu 2007. Ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um tóbakslausa framhaldsskóla hafa verið afhentar og kynntar skólameisturum og forvarnafulltrúum í öllum framhaldsskólum landsins. Kannanir Lýðheilsustöðvar á tóbaksvörnum í skólum benda til að nú þegar noti um helmingur skólanna þessar leiðbeiningar. Þá voru tóbaksvarnir einnig tengdar verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóla þar sem reynt er að nálgast forvarnir á heildstæðan hátt með áherslu á næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.

C-liður spurningarinnar var að 50 opinberar stofnanir hafi gert áætlanir um öryggi og heilbrigði í lok árs 2009 þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan starfsmanna. Svarið er að því markmiði hefur ekki verið fylgt eftir en árið 2008 kom út bæklingurinn Ráðlegging um heilsueflingu á vinnustöðum sem var samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og Vinnueftirlitsins og hluti af verkefninu Heil og sæl í vinnunni. Eins og kom fram áður hefur því verkefni nú verið hætt.

Lýðheilsustöð er einn af samstarfsaðilum ÍSÍ um Hjólað í vinnuna, eins og áður var bent á. Verkefnið hvetur starfsfólk og vinnustaði ekki aðeins til að nota virkan ferðamáta heldur einnig til að huga almennt að heilsueflingu á vinnustöðum. Velferðarráðuneytið einnig aðili að Lífshlaupinu, sem er afar vel heppnuð áminning um að stunda hreyfingu a.m.k. hálftíma á dag og hefur tekist afar vel.

D-liðurinn var að allar stofnanir heilbrigðisráðuneytisins hafi mótað sér heilsustefnu til ársloka 2009 og ríkisfyrirtæki almennt fyrir árslok 2010. Svarið við því er að ekki hafa verið teknar saman upplýsingar um þann þátt og verkefninu hefur ekki verið fylgt eftir af ráðuneytinu, en það er ágæt áminning um að það verði gert nú þegar við erum komin á einn stað með nýtt velferðarráðuneyti. Það hefur verið rætt að við verðum að setja upp áætlun um hvernig við getum búið að starfsfólki þannig að það geti stundað heilsurækt.

Varðandi e-lið, að í lok árs 2009 hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið boðið upp á námskeið í öllum landshlutum til að fylgja eftir ráðleggingum um heilsueftirlit á vinnustöðum, vísa ég til svarsins við c-lið. Þeim þætti hefur ekki verið fylgt eftir og verkefninu hætt.

Varðandi f-lið, að í lok árs hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlit boðið upp á námskeið fyrir atvinnulausa í öllum landshlutum, er svarið það að sérfræðingar Lýðheilsustöðvar hafa verið með fræðsluerindi fyrir atvinnulausa hjá Rauðakrosshúsinu. Vinnueftirlitið vinnur fyrst og fremst að heilsueflingu og öryggi á vinnustöðum. Þá verður að nefna að Vinnumálastofnun er að sjálfsögðu mjög virk í námskeiðahaldi fyrir atvinnulausa og sérstakt átak hefur verið í gangi til að virkja ungt, atvinnulaust fólk til þátttöku með verkefninu Ungt fólk til athafna. Auðvitað væri hægt að beina því í auknum mæli í hreyfingu.

Það er rétt sem komið hefur fram, auðvitað skiptir mestu máli að frumkvæði ríkisvaldsins sé hvatning og skýr skilaboð. Auðvitað verða lög og reglur að styðja við eftir því sem við á, það getur varðað t.d. tóbak, áfengi, fíkniefni og annað slíkt. En fyrst og fremst á þetta auðvitað að vera hvatning og það er rétt sem hv. þingmaður sagði, þar geta mælingar að einhverju leyti stutt við og skipt máli þótt við megum aldrei falla í þá gryfju að þær séu aðalatriðið. Það er fyrst og fremst hið daglega starf sem skiptir máli.