139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[18:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, en mig langaði að spyrja hann aðeins í framhaldinu um það sem fram hefur komið, að í frumvarpinu sé ekki kveðið á um að dæma menn til meðferðar.

Þegar menn eru fjarlægðir af heimilum, ef það verður gert í samræmi við þetta frumvarp sem þá verður orðið að lögum, er í mínum skilningi — og kannski leiðréttir ráðherra mig ef ég hef rangt fyrir mér — ekki verið að dæma þá beinlínis fyrir ofbeldi heldur er talið af hegðun þeirra að þeir hafi framið lögbrot og þeir teknir út af heimilinu án þess að búið að sé að rétta í ofbeldismáli fyrir dómstólum. Heimilisofbeldi er auðvitað ofbeldi sem fer fram í nánum samböndum; það snýst ekki um að maður úti á götu veitist að öðrum manni eða kona að annarri konu. Maður veltir því fyrir sér hvort það geti komið upp sú staða að eðlilegt sé að dæma mann til meðferðar án þess að hann hafi verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot, að málið fari ekki fyrir dómstóla því að það sé innan fjölskyldu og þau mál lenda sjaldan fyrir dómstólum, en að þær aðstæður komi upp að hægt sé að dæma hann til meðferðar. Þetta er kannski alrangt hjá mér en ég velti því upp hvort ég hafi skilið hæstv. ráðherra rétt, að áður en hægt sé að dæma menn til meðferðar verði að vera búið að dæma þá (Forseti hringir.) fyrir brot.