139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[18:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Ég tel ástæðu til að fagna því aftur að þetta frumvarp hefur verið lagt fram af hálfu hæstv. innanríkisráðherra.

Heimilisofbeldi eða kynbundið ofbeldi er að mínu mati annað tveggja svæsnustu birtingarforma kynjamisréttis. Annars vegar er það hið kynbundna ofbeldi og hins vegar launamisrétti kynjanna. Kynbundið ofbeldi er stórt vandamál í íslensku samfélagi eins og í flestum samfélögum. Það er mér ákveðið umhugsunarefni að ekki er markmiðsgrein í frumvarpinu. Mér skilst að það sé ekki venjan í frumvörpum sem varða hegningarlög og fleira slíkt en ég held að það væri eðlilegt. Allsherjarnefnd ætti að kanna hvort ekki er eðlilegt að setja markmið inn í lögin því markmiðið er að stuðla að vernd þolenda heimilisofbeldis. Friðhelgi heimilisins er mikilvægur hornsteinn í okkar samfélagi en við verðum líka að vera mjög skýr og afgerandi í því að friðhelgi heimilisins á ekki að vera skjól fyrir kúgun. Frumvarpið tekur á mannréttindamáli sem lýtur að vernd einstaklinga gagnvart þeim sem standa þeim hvað næst í kjölfar alvarlegs og síendurtekins ofbeldis.

Þá vil ég fagna því að í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að lögreglustjóri geti að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögum þessum ef hann telur ástæðu til. Eðli málsins samkvæmt er flókið samspil í nánum samböndum og það getur verið ákaflega erfitt fyrir einstakling að óska eftir þessu fyrir einhvern sem honum stendur nærri þó að viðkomandi standi ógn af þeim aðila og kannski einmitt af því að honum stendur ógn af honum. Þess vegna fagna ég því mjög að lögreglustjóri geti tekið frumkvæði.

Þá vil ég líka koma inn á að ég er ánægð með að því sé bætt við að brottvísunina beri að tilkynna til barnaverndarnefnda. Nýlega hefur verið mikil umræða um að það farist stundum fyrir að tilkynna mál sem varða heimilisofbeldi barnaverndarnefndum eða a.m.k. hafi málefnum barna á heimilum þar sem ofbeldi er framið ekki alltaf verið fylgt eftir. Því er mikilvægt að skýrt sé kveðið á um það í lögunum að tilkynna eigi til barnaverndarnefndar þegar slíkt gerist.

Ég spurði áðan, frú forseti, hæstv. innanríkisráðherra um 23. lið áætlunar í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára þar sem kveðið er á um meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar. Ég held að ef við ætlum að vinna bug á heimilisofbeldi í íslensku samfélagi sé mjög mikilvægt að gerendurnir hafi tækifæri til meðferðar. Okkur ber fyrst og fremst að vernda þolendur og tryggja réttindi þeirra og sýna umhyggju fyrir þeim en það er líka þannig að gerendur í ofbeldismálum eru oft þolendur, hafa á einhverju æviskeiði, yfirleitt í bernsku, verið jafnvel þolendur heimilisofbeldis sjálfir. Mér finnst því mjög mikilvægt, þegar ríkisvaldið sýnir svo mikinn vilja til að grípa inn í heimilisofbeldismál, að til séu úrræði fyrir þolendur og jafnframt gerendur til að reyna að koma þeim út úr þessu atferli og rjúfa vítahringinn. Einnig hvað varðar börnin sem búa á heimilinu, þau eru líklegri til að verða gerendur í ofbeldismálum síðar ef ekki er tekið á málum þannig að huga mætti líka nánar að því hvernig fara á með þau börn sem upplifa ofbeldi á heimilum sínum og hvaða meðferðar þau eigi að njóta til að koma í veg fyrir heimilisofbeldi til framtíðar.

Í 7. gr. segir að brottvísun af heimili skuli markaður ákveðinn tími, þó ekki lengur en í fjórar vikur í senn. Mjög mikilvægt er að á þeim fjórum vikum sem þarna líða sé unnið í málefnum heimilismanna svo tryggt sé að fjölskyldan fái aðstoð til að komast út úr þessum vítahring hvernig svo sem það er gert, hvort sem það endar með því að gerandinn flyst brott af heimilinu sjálfviljugur eða fjölskyldan ákveður að reyna til þrautar að halda áfram samlífi sínu en fái aðstoð til að komast út úr þeim skelfilegu aðstæðum sem heimilisofbeldi skapar.

Í 8. gr. er kveðið á um að ef sakborningur eða brotaþoli skilur ekki nægilega vel íslensku skuli kvaddur til löggiltur dómtúlkur. Nú hélt ég að ef maður skilur ekki íslensku og kemst í kast við lögin eða einhver stjórnvaldsframkvæmd er uppi gagnvart manni þá eigi maður alltaf rétt á túlki. Mér finnst því athyglisvert að þetta ákvæði sé þarna inni og velti þessu fyrir mér. Þetta kemur þarna inn eins og það sé nánast líklegra að sá sem fjarlægja þurfi af heimili skilji ekki íslensku. Mér finnst þessi setning skjóta skökku við en kannski er full ástæða til að tryggja þennan rétt í löggjöfinni af því að hann er ekki tryggður í einhverri annarri. Nú þekki ég það ekki en tel að allsherjarnefnd ætti að fara yfir hvort sérstaklega þurfi að taka þetta fram í þessari löggjöf.

Ég endurtek að þetta er mikið framfaraskref í baráttunni gegn kvennakúgun og í baráttunni gegn heimilisofbeldi. Ég vona að stjórnvöld tryggi, eins og ég kom inn á, meðferðarúrræði til að reyna að hjálpa þeim einstaklingum sem jafnt eru þolendur og gerendur til að öðlast betra líf í kjölfar inngripa lögreglu.