139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[19:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni fyrir orð hans og þeim sem talað hafa í þessu máli. Við ræðum tillögu til þingsályktunar og hún er þó nokkuð mikið plagg, það verður að segjast eins og er. Ég efast ekki um að þeim hugmyndum sem haldið er á lofti fylgi góður hugur. En það þarf meira en góðan hug, það þarf að láta hlutina ná fram að ganga því að það er kannski saga byggðaþróunar og byggðastefnu á Íslandi að góðum hug hafa ekki alltaf fylgt miklar efndir. Það á vonandi eftir að breytast.

Sá fyrirvari sem ég hafði gagnvart þessu máli sneri fyrst og fremst að því að við erum að mínu viti í hálfgerðu rugli með byggðamálin þegar við fjöllum um þau á tveim stöðum. Við erum með tillögu til þingsályktunar, svo erum við með eitthvað sem heitir 20/20 – Sóknaráætlun fyrir Ísland. Það þvælist svolítið hvort fyrir öðru að mínu viti. Engu að síður ber okkur að leggja fram þessa ályktun og við gerum það.

Ég þakka formönnum iðnaðarnefndar fyrir hvernig þau hafa haldið á þessu máli. Hlustað hefur verið á það sem við höfum haft fram að færa og það kemur fram í nefndarálitinu. Ég vil líka taka undir það sem fram kom áðan hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að byggðamál er ekki pólitísk hugsýn, þau eru grafalvarlegt mál. Þau snúast um jafnrétti fólks í landinu, jafnrétti til atvinnu og að hafa jafnan aðgang að þeirri lífsbjörg sem allir telja sjálfsagða.

Ég ætla að nefna örfá atriði, frú forseti. Ég tel mikilvægt að við stöndum þétt við landshlutasamtök sveitarfélaga og að mínu viti eigum við að reyna að gera það sem við getum til að gefa þeim meira vægi þegar kemur að atvinnuþróun heima fyrir.

Vegaframkvæmdir eru gríðarlegt byggðamál hreinlega í því sambandi að tengja byggðir landsins við vegakerfið þannig að flestir geti komist landshorna á milli eða einfaldlega fengið til sín vörur og þjónustu. Í því sambandi má einnig nefna flugsamgöngur því að þær eru ekki síður mikilvægar. Það er svolítið sérstakt að ræða flugsamgöngur í því sambandi að þær eru mjög mikilvægur þáttur þegar við ræðum um flutning opinberra stofnana út á land. Það hefur sýnt sig, t.d. á þeim stað þar sem ég bý, að það er mikilvægt fyrir þessar stofnanir að hafa flugsamgöngur.

Menntun og háskólar eru gríðarlega mikilvægur þáttur. Við þurfum vitanlega að feta einhverja skynsemisbraut í því hvernig við byggjum um menntakerfið, framhaldsskólakerfið og háskólana, en því er ekki að leyna að þar sem slík starfsemi er hefur hún mjög jákvæð áhrif á mjög stóru svæði.

Ég tel að einhver besta byggðaaðgerð sem stjórnvöld geta gripið til fyrir utan vegaframkvæmdir og slíkt sé að flytja opinber störf út á land, efla þau og helst að reyna að fjölga störfum í þeim stofnunum sem fyrir eru.

Í breytingartillögum nefndarinnar er lagt til að forsætisráðherra flytji skýrslu á Alþingi um framgang byggðaáætlunar, að það verði fyrst gert árið 2012. Það er mjög mikilvægt að það nái fram að ganga, með því hefur Alþingi ákveðið aðhald á framkvæmdarvaldinu, sem er mjög mikilvægt. Það er erfitt fyrir framkvæmdarvaldið að hafa lítið fram að færa ár eftir ár.

Einnig fagna ég mjög þeirri tillögu sem við komum okkur saman um, að við bætist texti þar sem lögð er áhersla á að jafna húshitunarkostnað og flutningskostnað. Það eru ein brýnustu hagsmunamál landsbyggðarinnar þegar horft er á heildarmyndina, það skiptir gríðarlega miklu máli.

Frú forseti. Það þarf vilja til að standa vel að byggðamálum. Það er nóg til af hugmyndum, nóg til af skýrslum, nóg til af rómantískri hugsun í byggðamálum. Það þarf góðan vilja og það þarf að sýna hann í verki.

Að lokum, frú forseti, minni ég á að sveitarfélögin hringinn í kringum landið eru mikilvægir þættir þegar við ræðum byggðamál. Þau þarf að efla og styrkja. Með þeim orðum læt ég ræðu minni lokið.