139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að við sem sitjum á hv. Alþingi séum ósammála um margt, en ég held að við séum þó sammála um að við viljum gæta hagsmuna Íslands og Íslendinga. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs undir þessum lið er sú að ég vil í mestu vinsemd hvetja hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans til að huga að ákveðnum þáttum. Nú liggur fyrir að við höfum verið í viðskiptastríði út af Icesave-málinu. Það skiptir máli hvernig á því máli er haldið og hvað hæstv. ráðherrar segja. Ef við skoðum viðbrögð hæstv. ráðherra eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna getum við ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að þau ummæli hjálpi ekki málstað Íslendinga.

Annað mál sem ekki hefur farið hátt en hefur verið mikið tekist á um í þingsölum og í nefndum er innstæðutryggingakerfið hið nýja. Fyrir þá sem ekki þekkja, virðulegi forseti, er núna verið að reyna að klára og gera að lögum tilskipun Evrópusambandsins sem er ekki enn partur af EES-samningnum. Þetta innstæðutryggingakerfi er hálfu verra en það sem við eigum við í Icesave-málinu og ég vek athygli á því að enginn hæstv. ráðherra í núverandi ríkisstjórn hefur farið til Brussel og reynt að gæta hagsmuna Íslendinga. Einhver kynni að segja að það væri ekki hægt af því að við erum í EES. Þetta er ekki komið inn í EES-samninginn vegna þess að Norðmenn gæta sinna hagsmuna.

Virðulegi forseti. Við höfum nokkrar leiðir, (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan, til að hafa áhrif á gang mála. Ég höfða hér til samvisku (Forseti hringir.) hv. stjórnarliða í þessum málum og vona að þeir hugsi þetta mál vel.