139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að það séu reglur um þessar veiðar sem aðrar en ég hef ekki heyrt að menn hafi verið á þeirri skoðun að þetta hafi gengið illa. Hv. þingmaður nefnir að stofninn sé ekki stór. Hann er að stækka jafnt og þétt, það er enginn vafi um það í huga mínum. Ein af ástæðunum fyrir því er að það hefur verið virkt veiðieftirlit. Ég held að það sé mjög mikilvægt í þessu að það sé ekki þannig að það verði að setja reglur til þess að setja reglur. Menn verða að nálgast málið út frá því hvaða markmiðum þeir ætla að ná og nýta þekkingu þeirra sem stunda þessar veiðar. Enginn þekkir þær betur en þeir, með fullri virðingu fyrir góðu fólki í ráðuneytum og Umhverfisstofnun. Við erum nú að sjá afleiðingar samráðsleysis varðandi Vatnajökulsþjóðgarð sem eru mjög alvarlegar. Þar er verið að ganga á rétt okkar Íslendinga til að nýta náttúruauðlindirnar sem er hálendið. Það má ekki gerast í þessu máli.

Það er algjörlega ömurlegt þegar dýr eru særð. Það er því miður ekki bundið við hreindýr. Ég held nú að það leiðsögumannakerfi sem verið hefur hér fram til þessa hafi gert það að verkum að slíkt heyri til undantekninga.

Eins og ég nefndi áður, og það skiptir máli að hv. þingmenn meti það, getum við ekki, sama hversu vönduð lagasetningin er, tryggt að veiðimenn hitti alltaf í mark, því miður. En við getum tryggt umgjörðina, að það séu sem minnstar líkur á því að dýr særist og séu ekki aflífuð strax.