139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:23]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna um málið og ætla að fara yfir þær spurningar sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bar upp í ræðu sinni. Ég vil geta þess í byrjun að þetta mál er sett fram fyrst og fremst að tillögu Umhverfisstofnunar sem er það stjórnvald sem hefur haft utanumhald og umsjón með málinu. Þar er gríðarlega mikil þekking á málinu og auðvitað er frumvarpið byggt á góðu samráði og samstarfi við þá sem gerst til þekkja á svæðinu.

Eins og ég kom að í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson liggur víðtæk sátt til grundvallar þessu frumvarpi og er það sett fram af ýmsum ástæðum. Má þar meðal annars nefna það sem fram kom áðan varðandi dýraverndarsjónarmiðin, að gert er ráð fyrir því að verklegt skotpróf síðustu 12 mánuði dragi, eins og fram kemur í frumvarpinu, úr hættunni á því að illa fari, þ.e. að dýr séu særð en ekki felld. Gert er ráð fyrir því að sérhver veiðimaður undirgangist þetta próf á hverju ári en það er í sjálfu sér óútfært með hvaða hætti það er gert. Gjaldtökuheimild fyrir Umhverfisstofnun er til staðar í frumvarpinu. Það er væntanlega eitthvað sem nefndin mun taka til frekari skoðunar og umfjöllunar.

Þingmaðurinn spyr líka varðandi skilyrðin sem fram koma í 2. gr. frumvarpsins, ef ég man rétt, þ.e. listann yfir þau skilyrði sem leiðsögumenn þurfa að uppfylla. Það eru skilyrði sem voru að meginstofni til í reglugerð áður. Það er því ekki verið að þyngja það heldur er verið að styrkja stöðu þessara skilyrða í lögunum. Menn telja þessum skilyrðum betur valinn staður í lögunum sjálfum.

Þingmaðurinn spyr líka um endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn. Þar er því til að svara að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að leyfið gildi til fjögurra ára. Jafnframt var spurt um nýja staðsetningu, þ.e. að leiðsögumenn þyrftu að gangast undir nýtt próf ef um flutning á milli svæða væri að ræða. Það er gert til þess að fullvíst sé að viðkomandi leiðsögumaður hafi þá staðþekkingu sem til þarf til að geta leiðbeint um það svæði ef hann flytur sig á milli svæða.

Þetta er allt saman gert í góðri sátt, eins og ég gat um áðan í framsögu minni. Málið hefur verið sent til umsagnar til sveitarfélaganna og Félags leiðsögumanna og þeirra aðila sem að því koma með einhverju móti. Ég vænti þess og vonast til að það verði eins og bent hefur verið á í umræðunum til þess að umhverfisnefnd eigi létt með að vinna málið til loka þar sem það samráð sem þegar hefur verið haft hefur verið farsælt og ekki hafa komið upp ágreiningsraddir við samningu og framlagningu þess.