139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:08]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Árósasamningurinn tengir saman umhverfisrétt og mannréttindi, en í samningnum segir að það sé réttur sérhvers manns að lifa í heilbrigðu umhverfi og um leið beri honum skylda til þess að vernda umhverfi sitt. Samningurinn á að tryggja almenningi réttindi til að geta uppfyllt þessar skyldur sínar og um leið að njóta réttindanna.

Staðfesting Íslands á Árósasamningnum hefur lengi verið baráttumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og kem ég því hér upp til að fagna frumvarpinu. Ég þakka sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa miklu og vönduðu vinnu sem og allri nefndinni sem stóð að því að undirbúa frumvarpið.

Réttindin sem samningurinn á að tryggja eru þríþætt: Það er réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál, réttur almennings til þátttöku í málsmeðferð þegar ákvarðanir af hálfu stjórnvalda í umhverfismálum eru undirbúnar og aðgangur að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum úrskurðaraðila, sem er í raun og veru leiðin sem farin er í frumvarpinu.

Mér finnst sérstaklega gleðilegt að sjá hversu langt er gengið í frumvarpinu hvað varðar aðild að kærum vegna stjórnvaldsákvarðana. Ég held að það muni bæta til muna réttindi og aðkomu umhverfisverndarsamtaka að umhverfismálum og að þau njóti samkvæmt þessu kæruréttar án þess að þurfa að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Því fagna ég sérstaklega. Ég fagna þessu frumvarpi og ég tel það afar mikilvægt skref í baráttu fyrir sjálfbæru samfélagi á Íslandi. Ég vona að sátt náist um frumvarpið og að það fari fljótt og vel í gegnum þingið.