139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt hjá þingmanninum að nefndin taki þetta allt saman til ítarlegrar skoðunar.

Ég er með ágæta skýrslu þar sem er samanburður á því hvernig þetta er gert í Evrópu og þar er farið yfir til að mynda hvaða lönd fara stjórnsýsluleiðina og hvaða lönd fara dómstólaleiðina vegna þess að það er líka afstaða sem hvert ríki þarf að taka. Farið er yfir aðildarmálin sem eru með ýmsum hætti eins og við höfum rætt nokkuð ítarlega. Þar er farið yfir hversu mikinn kostnað almenningur ber af kærunni eða hvort hún er án endurgjalds, það er líka mismunandi. Svo er þar allnokkuð góð úttekt á gagnsæi ferilsins í hverju landi fyrir sig af því að það er náttúrlega í anda Ársósasamningsins að gagnsæi sé mikið þannig að almenningur sjái hvernig máli reiði af frá einu stigi til annars.

Ég tek því undir það í meginatriðum með þingmanninum að rétt sé að nefndin rýni þetta afar vel og ég finn og heyri á umræðunni að það er sá þáttur sem menn staldra einna helst við, þ.e. þeir sem eru ekki beinlínis skeptískir á að innleiða beri samninginn staldra við það sem varðar þessa opnu kæruaðild.

Ég vænti þess að nefndin taki þetta til gagngerrar skoðunar. Margar góðar samanburðarskýrslur eru til þannig að það þarf ekki að byrja á byrjunarreit í þeirri vinnu.