139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

71. mál
[17:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. formanni iðnaðarnefndar, Kristjáni Möller, fyrir hans framsögu. Um leið og ég lýsi stuðningi við það mál sem hér er á ferðinni vil ég fagna því að góð sátt náðist um málið á vettvangi iðnaðarnefndar. Mér finnst gögn málsins benda til þess að nefndin hafi lagt í góða vinnu varðandi það, sem nauðsynlegt er.

Ég ætla ekki að gera frekari athugasemdir við ræðu hv. þingmanns. Ég vildi bara nota þetta tækifæri til að koma því sjónarmiði á framfæri að mikilvægt er að beina tilmælum af þessu tagi til ríkisstjórnar en þetta er hins vegar líka, þegar um er að tefla fjárveitingar til verkefna af þessu tagi, mál fyrir okkur í þinginu, fyrir okkur sem höfum fjárveitingavaldið. Milli þess sem hér eru afgreidd fjárlög og fjáraukalög þá stendur það upp á framkvæmdarvaldið að inna af hendi greiðslur vegna verkefna.

Ég beini því til formanns iðnaðarnefndar og raunar hv. formanns fjárlaganefndar, sem líka er í salnum, að hugað verði að því að mikilvæg verkefni af þessu tagi fái brautargengi þegar kemur að fjárveitingum úr ríkissjóði.