139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[17:10]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætti ekki að vera auðvelt að breyta þessu? Það virðast allir sem tala hér í dag vera sammála um að þetta sé ekki í lagi, en ætti þetta ekki að vera í lagi? Hver vill fá bakreikninga eftir eitt og hálft ár? Vill Alþingi láta stilla sér upp? Fjárveitingavaldið á að vera hér, en eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á er það ekki hér. Alþingi getur ekki sagt nei. Það er ekki í boði.

Hvað vantar? Hver er fyrirstaðan? Viljum við sem sitjum hér í þessum sal og teljum okkur vera að setja fjárlög hafa þetta svona? Ég kom hér inn í desember, virðulegi forseti, og tók aðeins þátt í lokafrágangi fjárlaga. Hér var unnið og hér var talað og ég hélt ræðu mína klukkan korter í þrjú að nóttu. En þegar einu og hálfu ári seinna er komið með viðbót við þau fjárlög sem voru samþykkt árið 2009, til að segja hvernig þau fjárlög hefðu átt að vera, hvernig stofnanir mega eyða þá getur það ekki verið í lagi. Það hlýtur að vera afskaplega auðvelt, þó að ég viti að svo sé ekki, að laga þetta.

Mér finnst frábært að góð samstaða skuli vera í hv. fjárlaganefnd um þetta mál. Fyrir fólk sem er að koma utan að og hlustar á þetta og skoðar þetta er þetta alveg ótrúlegt mál. Það er ekki einu sinni hægt að reka heimili með þessum hætti. Við hljótum að geta lagað þetta.