139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í 65. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi frú forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Og líklega líka flokksaðildar.

Síðan stendur í 70. gr.:

„Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur …“

Það er búið að breyta einu sinni umgjörð réttarhaldanna sem um er að ræða og það er búið að ákæra. Það er ekki lítill aðili sem ákærir, það er löggjafarvaldið sjálft. Hv. þm. Atli Gíslason var í forsvari fyrir þá ákæru. Nú er sem sagt verið að breyta lögum um það hvernig landsdómur er kjörinn.

Ég er með tvær spurningar, í fyrsta lagi: Verðum við eftir sem áður að kjósa nýjan landsdóm ef það skyldi koma nýtt mál? Það eru miklar líkur á því, nú er a.m.k. verið að gera eitthvað. Menn voru þarna ákærðir fyrir að gera ekki eitthvað og það er miklu erfiðara að taka á þeim málum. Síðan er spurningin: Af hverju þessi flýtir? Hvernig stendur á því þar sem menn vissu þetta fyrir löngu? Það er búið að liggja fyrir lengi að það þurfi að gera þetta. Samt þarf að keyra þetta hér í gegn með afbrigðum og öðru slíku. Er þetta dæmi um hve slæleg vinnubrögðin eru? Og þarf hinn ákærði virkilega að sæta því að vera ákærður af einni af grunnstoðum þjóðfélagsins og því að það sé allt saman unnið af mikilli ónákvæmni?