139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að í störfum þingmannanefndarinnar hafi verið gætt ýtrasta réttaröryggis og farið eins vandað í þetta mál og kostur var. Ég fékk þennan kaleik og vann mitt verk sem Alþingi kaus mig til að gera og ég fullyrði að nefndin hafi öllsömul unnið að þessu máli, einnig fulltrúar stjórnarandstöðunnar, af góðri og mikilli samviskusemi og mjög faglega. Við fengum á okkar fund fjölda sérfræðinga sem leiðbeindu okkur líka, auk þess sem lögfræðiþekking var til staðar í nefndinni. Ég tel að fyllsta réttaröryggis hafi verið gætt og að menn hafi verið jafnir fyrir lögum gagnvart nefndinni og við þessa málsákvörðun.

Þetta er ekki ákæra af hálfu Alþingis. Þetta er ákvörðun um málshöfðun. Það er síðan saksóknari Alþingis sem gefur út ákæruskjal. Það er ekki komið út enn þá en þess er að vænta. Ég man ekki betur en að ég hafi séð það í fréttum að það yrði eftir páska. Það verður þá í þessari eða næstu viku. Alþingi tekur ákvörðun um málshöfðun. Málið fer til (Forseti hringir.) saksóknara Alþingis.