139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hugarflugi hv. þingmanns séu nú engin takmörk sett að fara að tengja þetta við Evrópusambandið. Ýmislegt getur hann tengt Evrópusambandinu, en ekki þetta frumvarp, að það sé runnið undan rótum þess. Það er fyrst og fremst, eins og ég ítrekaði margsinnis í framsögu minni, vegna ábendinga sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og erum við meðal annars að tala um það sem margir telja að hafi að minnsta kosti átt þátt í hruninu, þ.e. að það vantaði samhæfingu á milli ráðuneyta. Það er fyrst og fremst það sem verið er að styrkja með þessu, það er að samhæfa ráðuneyti, samhæfa aðgerðir þeirra, ef um skyld mál er að ræða þá sé það rætt í ráðherranefndum. Síðan er verið að styrkja verkstjórnarhlutverk forsætisráðuneytisins að því leyti að forsætisráðherra hafi yfirsýn, meðal annars í gegnum ráðherranefndir, yfir ýmis mál, ekki síst efnahagsmál. (Forseti hringir.) Ég hef getið þess að mér finnst ráðherranefnd um efnahagsmál svo sannarlega hafa skilað því sem ætlast var til af henni.