139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirvegaða og málefnalega ræðu, hann fór vel yfir frumvarpið og það sem ber að varast í því og það sem hann telur að betur megi fara.

Töluvert hefur verið talað um að frumvarpið ýti undir foringjaræði sem er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt. Mig langar að vitna til skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar og niðurstöður hennar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt. Ljóst er að ráðherraábyrgðarkeðjan slitnaði eða aflagaðist í aðdraganda hrunsins og ráðherrar gengu á verksvið hver annars, t.d. þegar fagráðherrar voru ekki boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið. Ábyrgð og eftirliti fagráðherra með sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneyti þeirra heyrðu virtist verulega ábótavant.“

Það er fleira sem kemur fram í þessari ágætu skýrslu og hæstv. forsætisráðherra kom inn á stjórnarráðsfrumvarpið væri lagt fram á grundvelli þessarar skýrslu. Mig langar því að spyrja hvort hv. þingmanni þyki ekki skjóta skökku við að í staðinn fyrir að efla Alþingi og skilja betur þarna á milli sé verið að auka vald framkvæmdarvaldsins með því að færa þetta frá Alþingi yfir til hæstv. forsætisráðherra hverju sinni sem hafi gerræðisákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti starfi hér, hvaða málaflokkar séu undir þeim o.s.frv.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann, af því hæstv. forsætisráðherra vitnar til þess að innan raða stjórnarandstöðunnar sé stuðningur við málið, (Forseti hringir.) hvort hann finni fyrir þeim mikla meðvindi með málinu innan raða stjórnarandstöðunnar. Hann tilheyrir jú þeim hópi.