139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Umræðan hefur sannarlega farið víða í dag og má kannski til sanns vegar færa að álitamál hér snúa annars vegar beint að frumvarpinu sjálfu. Það eru hlutir sem ég ætla að fara aðeins nánar yfir á eftir og snertir fundargerðir, ábyrgðarkeðju ráðherra og hvort verið sé að auka foringjaræði og oddvitaræði eða draga úr því. Það er klárt að allsherjarnefnd og þingið þurfa að fara gaumgæfilega yfir það. Hins vegar hefur komið til tals sú staðreynd að mikil tortryggni ríkir í samfélaginu. Mikil tortryggni er í garð núverandi ríkisstjórnar. Það er tortryggni innan ríkisstjórnarflokkanna, milli flokkanna og jafnvel innan þeirra. Það er í sjálfu sér svolítið súrrealískt að við óttumst að frumvarpið auki foringjaræði um leið og við verðum vitni að því að hæstv. forsætisráðherra kemur með frumvarpið, sem er um breytingar á Stjórnarráðinu samkvæmt sáttmála ríkisstjórnar, og hefur ekki hugmynd um hvort meiri hluti sé fyrir því eður ei. Það flokkast þá frekar undir skort á leiðtogahæfileikum og skort á því að geta stjórnað með foringja- og oddvitaræði. Það er kannski lýsandi dæmi um þá stöðu sem samfélagið er í með hæstv. ríkisstjórn og þau störf sem hún stendur fyrir.

Sú umræða sem hefur líka verið talsvert í gangi tengist því að aðeins einn flokkur á Íslandi vill standa í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og jafnvel ganga í það að flestum kostum óskoðuðum eða lítt skoðuðum. Það er flokkur hæstv. forsætisráðherra, Samfylkingin. Margt af því sem hér er unnið gerist þar af leiðandi í því tortryggnisumhverfi að alltaf er búist við að Samfylkingin sé að toga menn inn í Evrópusambandið með einum eða öðrum hætti. Það batnar ekki við það þegar þingmannanefndir á vegum ríkisstjórnarinnar og sameiginlega á vegum Evrópusambandsins koma með pappíra frá Brussel sem sanna fyrir mönnum að verið er að aðlaga íslenskt stjórnkerfi að Evrópusambandinu. Tortryggnin minnkar ekki við það, frú forseti.

Fyrr í dag var umræða um það sem snýr að annarri hliðinni, að vilja Samfylkingarinnar fyrst og fremst og ekki síst hæstv. forsætisráðherra til að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og stofna atvinnuvegaráðuneyti. Hluti af þeirri umræðu hefur verið neikvæð hjá hv. þingmönnum og jafnvel hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar, ekki síst Samfylkingarinnar, og snúist um ráðuneytið. Hv. þm. Kristján Júlíusson vitnaði til umræðunnar sem birtist á vefmiðlum í dag um að stjórnarþingmenn líktu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hans vinnu við vinnu simpansa. Fyrr í dag kom hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hingað upp og talaði um skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi stjórnsýslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem m.a. er til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins. Þegar ríkisendurskoðandi kom fyrir nefndina fyrir páska svaraði hann aðspurður að það væri ekkert öðruvísi með stjórnsýslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins en annarra ráðuneyta. Ekkert hefði komið í ljós sem væri ábótavant í stjórnsýslu ráðuneytisins gagnvart Bændasamtökunum, hvergi hefðu peningar verið færðir til eða neitt misferli verið í gangi, það léki bara grunur á því. En þetta hefur verið í umræðunni eins og þar hafi verið framdir stórglæpir. Það kom meira að segja fram varðandi Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytið að þar væru mun alvarlegri hlutir á ferð, enda hefur þar verið misfarið með fé. Er það þó það ráðuneyti sem hæstv. núverandi forsætisráðherra hefur stýrt hvað lengst sem fyrrverandi félagsmálaráðherra og jafnvel sett menn sína í embætti þar. Umræðan verður auðvitað sérkennileg og tortryggnisleg þegar augljóst er að verið er að sverta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og draga úr trúverðugleika þess til að sýna fram á að nauðsynlegt sé að breyta því og færa yfir í atvinnuvegaráðuneyti. Hvort sem það er svo tilgangur þessa frumvarps eður ei þá er ekki óeðlilegt að menn óttist það.

Svo er önnur umræða hvort við eigum að velta því fyrir okkur að hafa hér atvinnuvegaráðuneyti eða hvort hinn íslenski veruleiki, þar sem sjávarútvegur er gríðarlega mikilvægur í grunngerð atvinnukerfis okkar og landbúnaður einnig, réttlæti ekki að við höfum sérráðuneyti fyrir þær tvær mikilvægu atvinnugreinar. Og iðnaðarráðuneytið þar sem orkan er er kannski þriðja atvinnugreinin sem mun verða undirstöðuatvinnugrein í uppbyggingu til langrar framtíðar. Er ekki réttlætanlegt að við séum með tvö ráðuneyti fyrir þessar mikilvægu atvinnugreinar? Það var í fréttum fyrr í vetur að menn vitnuðu til olíufursta og sögðu að tekjur Íslands á mann væru álíka af sjávarútvegi og af olíugróðanum í því eina landi, orkan væri þar fyrir utan og er hún þó vaxandi atvinnugrein. Er þá eitthvað óeðlilegt við að við höfum tvö ráðuneyti og tvo ráðherra yfir svo gríðarlega mikilvægum málaflokkum? Er eitthvað óeðlilegt við að við látum séríslenskar aðstæður gilda hér á landi en tökum ekki upp eitthvað sem hentar annars staðar, til að mynda í Evrópu? Ég held að umræðan sé í sjálfu sér mjög eðlileg og menn eigi ekki fyrir fram að festast í skotgrafahernaði.

Hæstv. forsætisráðherra fór ágætlega yfir málið og sagði þetta plagg vera vel unnið og hafa verið tvö ár í vinnslu og það á eins árs afmæli rannsóknarskýrslu Alþingis. Auðvitað er ekki öll vinnan byggð á rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er eitt ár síðan hún kom út. Vinnan við frumvarpið tók tvö ár og er augljóst að unnið hefur verið í lengri tíma að þessu og er plaggið því ekki eingöngu byggt á grunni rannsóknarskýrslu Alþingis. Margir hv. þingmenn hafa reyndar vitnað til rannsóknarskýrslunnar og skýrslu þingmannanefndarinnar, sem var til umræðu hér fyrr í haust, og ég var að hugsa um að gera það einnig, með leyfi forseta:

„Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Seinna stendur:

„Verk- og ábyrgðarsvið samráðshóps um fjármálastöðugleika var óljóst, heildaryfirsýn var engin og mat og greining á aðstæðum lá ekki fyrir.“

Seinna, með leyfi forseta:

„Í ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis telur þingmannanefndin mikilvægt að ráðist verði hið fyrsta í endurskoðun á stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og lögum um Stjórnarráð Íslands.

Þingmannanefndin telur að gera verði breytingar á lögum og reglum þannig að komið verði í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra.“

Þá kemur stóra spurningin sem allsherjarnefnd og við í þinginu þurfum að svara: Svarar þetta frumvarp því kalli? Er verið að tryggja ábyrgðarsvið ráðherra, að ábyrgðarkeðjan verði ekki rofin? Er tryggt að menn geti ekki skotið sér undan ábyrgð og sagt að forsætisráðherra beri ábyrgð á öllu saman? Eða er það það sem við viljum, að forsætisráðherra sitji einn uppi með ábyrgðina? Þetta er nokkuð sem við þurfum að ræða.

Líka var rætt fyrr í dag um það sem kemur fram í 7. gr. frumvarpsins varðandi fundargerðir, svo að ég lesi hér upp, með leyfi forseta:

„Í fundargerðir ráðherranefndar skulu færðar niðurstöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra auk þess sem greint skal frá umræðuefni, ef ekki er á því formleg niðurstaða, og bókuð afstaða samkvæmt sérstakri ósk ráðherra.“

Og í framhaldinu:

„Fundargerðir skulu staðfestar af forsætisráðherra og dreift til annarra ráðherra þegar staðfesting liggur fyrir.“

Allt er þetta gott og blessað og miklu betra en það var áður, samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis. En engu að síður taldi þingmannanefndin þegar hún fjallaði um málið mjög mikilvægt að fundargerðir ríkisstjórnar yrðu skráðar með skýrum hætti og birtar opinberlega. Af hverju komumst við að þeirri niðurstöðu? Það eru tvö stjórnsýslustig í landinu. Mörg okkar hafa starfað á vettvangi sveitarstjórna. Þar eru fundargerðir birtar opinberlega. Ef mál mega ekki koma fyrir almenningssjónir að svo stöddu, vegna persónulegra málefna eða vegna mála sem eru tengd viðskiptalegri leynd eða einhverju slíku, eru þau einfaldlega skráð í trúnaðarmálabók. Það er lagt til í skýrslu þingmannanefndarinnar. Þá má spyrja sig: Af hverju var ekki farið eftir skýrslu þingmannanefndarinnar og rannsóknarskýrslunni um að gera fundargerðirnar gagnsæjar? Það mundi gera það að verkum að gagnsæi stjórnsýslunnar ykist gríðarlega og möguleiki þingsins, þ.e. Alþingi og eftirlitshlutverk þess yrði miklu auðveldara, annars þurfum við að giska á og spyrja ráðherra í sal í óundirbúnum fyrirspurnum hvað var á dagskrá deginum áður ef við vitum ekki um hvað var fjallað. Af hverju má ekki birta fundargerðirnar opinberlega? Það er ekkert að því að skrá hluta í trúnaðarmálabók sem um giltu þá sérstakar reglur hvenær yrðu birtar, hvort sem væri vegna viðkvæmra málefna ríkisins eða annarra mála sem lytu að trúnaði. Þingmannanefndin fjallaði einnig um að á fundum innan Stjórnarráðsins, hér er fjallað um ráðherranefndir, skyldu færðar inn niðurstöður, skýrt frá frásögnum og öðru í þeim dúr. Allt er þetta ágætt, það er ekki það, en þingmannanefndin fjallaði líka um oddvitafundi vegna þess að hér á landi eru gjarnan samstarfsríkisstjórnir, oft tveggja flokka, jafnvel þriggja og e.t.v. fleiri í framtíðinni. Það er ekkert óeðlilegt við að menn komi saman. Þá er spurningin: Á að stofnsetja sérstakan ráðherranefndarhóp oddvita og á hann þar með að falla undir 9. og 10. gr. þessa frumvarps? Eða á áfram að vera leynd yfir samræðum oddvita? Í skýrslu þingmannanefndar er fjallað um að eðlilegt sé, með leyfi forseta:

„… að oddvitar stjórnmálaflokka eigi með sér samráðsfundi en engu að síður sé nauðsynlegt að setja reglur um skráningu einstakra ákvarðana í mikilvægum málefnum á slíkum fundum. Nefndin vill þó árétta að ákvarðanir á slíkum fundum geta aldrei leyst ráðherra undan skyldum sínum samkvæmt stjórnarskrá.“

Það er svo sem vísað til þess líka í III. kafla frumvarpsins, 6. gr. fjallar um þá hluti sem skal taka upp á ríkisstjórnarfundi og eru samsvarandi stjórnarskrá.

Allt eru þetta álitaefni sem mér finnst frumvarpið ekki svara. Talsvert hefur verið fjallað um aðstoðarmenn ráðherra og þann hóp sem kemur inn í ráðuneytin og hefur oft og tíðum orðið þar eftir til langs tíma og er einn af göllum íslenskrar stjórnsýslu. Ég held að sumt í frumvarpinu sé til bóta en eins og komið hefur fram getur það hreinlega verið takmarkandi. Til að mynda er fjallað um að það eigi að vera einn aðstoðarmaður og einn ráðgjafi. Hvernig er það núna? Ég ætla ekki að fullyrða að þeir séu fleiri en ég hef grun um að í einstaka ráðuneytum séu talsvert fleiri aðstoðarmenn. Svo er annað, aðstoðarmaður ráðherra og ráðgjafar gegna störfum fyrir ráðherra svo lengi sem þeir kveða á um en þó ekki lengur en ráðherra sjálfir og er heimilt að ráða þá án auglýsingar. Ef þessir starfsmenn sækja síðan um störfin þegar þau eru auglýst þá er ekki nóg að þetta standi í lagatexta. Það þarf siðferðilega breytingu til að þeir sem eru pólitískt ráðnir aðstoðarmenn breytist ekki í ríkisráðna embættismenn í lok ráðningartíma. Það þarf meira til en lagatexta.

Hæstv. forsætisráðherra sagði að búið væri að færa allt til betri vegar, ekki síst í ráðningu starfsfólks, en virtist þá hafa gleymt jafnréttismálum, framkvæmdastjóraklúðri Íbúðalánasjóðs o.fl. sem hefur verið í vegferð ráðuneytis hennar. En látum vera þó að menn gleymi nú einu og öðru.

Það er eitt sem mig langar að koma aðeins inn á í lokin. Það er í IV. kaflanum þar sem fjallað er um verkefni undirstofnana ráðherra sem þeir hafa kannski ekki beint um að segja, eins og Bankasýslu ríkisins, Fjármálaeftirlitið eða Seðlabanka. Þá velti ég fyrir mér hvort 12., 13. og 14. gr. séu nægilega skýrar hvað það varðar. Ég held að það sé nokkuð sem þurfi að fara yfir. Það er augljóst að ráðherra ber ákveðna ábyrgð. Það er spurning með hvaða hætti hann geti þá borið sig upp við (Forseti hringir.) viðkomandi stofnanir.

Tími minn er víst liðinn, frú forseti, þó að ég hefði getað talað um þetta talsvert lengur. Ég treysti því að um málið verði fjallað gaumgæfilega (Forseti hringir.) í allsherjarnefnd þegar þar að kemur.