139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir andsvarið og þennan vinkil á þetta mál. Ég get ekki svarað því nákvæmlega af hverju þessi mismunandi sýn kemur fram. Það er þó nokkuð augljóst að á sama tíma og þingmannanefndin hóf störf skipaði hæstv. forsætisráðherra sérstakan starfshóp til að skoða rannsóknarskýrsluna og strax varð uppi fótur og fit um að framkvæmdarvaldið væri nú þegar að troðast inn á verksvið Alþingis og það væri tvíverknaður og nokkur grá svæði yrðu á þessu sviði. Um þetta var reyndar fjallað í þingmannanefndinni og formaður nefndarinnar eða vinnuhóps forsætisráðherra kom á fund til að útskýra mál og reyna að átta sig á því hvort þetta mundi skarast mikið og hvernig það yrði.

Þegar skýrsla þingmannanefndarinnar kemur fram og í kjölfarið skýrsla annars hóps sem var skipaður um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, er tekið meira mark á henni en kannski þingmannaskýrslunni. Ég tók það þess vegna fram í ræðu minni að þarna eru nokkrir hlutir sem greinilega er ekki farið eftir í þingmannaskýrslunni og ekki er reynt að útskýra í texta í frumvarpinu af hverju það er ekki gert, eins og t.d. með birtingu fundargerðar.

Það er líka fjallað um það þar að forsætisráðherra skuli setja á laggirnar sérstakan samráðshóp Alþingis, sveitarstjórna o.fl.; blandaðan hóp til að fylgjast með efnahagsmálum, að rétt væri að lögfesta slíkt. Það er hvergi neitt um það í frumvarpinu þannig að ég held að menn hafi fyrst og fremst verið að fara að verklagi þess hóps sem forsætisráðherra (Forseti hringir.) setti upphaflega inn í málið en ekki endilega þess hóps sem (Forseti hringir.) fór hér yfir rannsóknarskýrsluna. Ég held hreinlega að sá munur gæti legið í því.