139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hjó eftir því að hann kom aðeins að samanburði sveitarstjórnarmála og þess hvernig unnið er með ákveðna þætti á hinu háa Alþingi. Stundum hefur mér þótt, á þeim þremur árum rúmum sem ég hef verið hér, að Alþingi mætti nýta sér í meira mæli reynslu af sveitarstjórnarstiginu, hvernig þar er unnið með mál.

Í þessi tilfelli, þegar við höfum samhljóða niðurstöðu 63 þingmanna um ákveðnar tillögur, tekur embættismannakerfið frumkvæðið af Alþingi og mótar síðan regluverkið í því. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort honum hefði ekki þótt eðlilegra, á grundvelli samþykktar þingmannanefndarinnar, að Alþingi hefði haft frumkvæði að því að vinna að tillögum um úrbætur í samskiptum framkvæmdarvaldsins og þingsins, (Forseti hringir.) á þeim grunni sem þar lá fyrir.