139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:04]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir yfirferð hans og innlegg í umræðuna. Hv. þingmaður sat í þingmannanefndinni sem fjallaði um rannsóknarskýrsluna, eins og kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar áðan, og ætti að þekkja þá skýrslu mjög vel. Því vil ég koma aðeins inn á það sama og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson minntist á áðan um það hvernig hv. þingmanni finnist þetta stjórnarfrumvarp, ef stjórnarfrumvarp skyldi kalla, koma til móts við gagnrýni á þá stjórnunarþætti sem gagnrýndir eru hvað harðast í skýrslunni, og hvað honum hefði þótt að betur mætti fara í framlagningu þessa frumvarps.

Hann kom reyndar aðeins inn á þetta áðan þannig að ég ætla að bæta við og spyr: Hvað lá á? Hvers vegna liggur svona svakalega á að koma með frumvarp inn í þingið sem er greinilega í bullandi ágreiningi? Það er kannski ekki ágreiningur í stjórnarandstöðunni um frumvarpið, þingmenn eru bara almennt ekki sáttir við hvernig frumvarpið er lagt fram þó að ákveðnir þættir í því séu í lagi. En hvað heldur hv. þingmaður að búi að baki þess að þetta frumvarp kemur hér inn og er lagt fram þegar vitað er að það er í ágreiningi? Hvað liggur á?