139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem löngu komið í ljós að ást Samfylkingarinnar á Evrópusambandinu er mikil og mun meiri en annarra flokka á þinginu. Sá flokkur er í sjálfu sér einangraður í því að hann er eini flokkurinn sem hefur ekki hafnað því eða lýst því yfir að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan, eins og ég held allir aðrir flokkar, a.m.k. þeir þrír stærri, hér á þinginu hafi gert.

Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni hefur umræðan um tengingu við Evrópusambandið verið hér uppi og með það skýrum hætti að hún rataði inn í ályktun sem átti að vera sameiginleg ályktun Evrópusambandsþingsins og íslenskra þingmanna sem tengjast aðildarviðræðunni í Evrópunefnd þingsins, en var reyndar stöðvuð þegar menn sáu hvers kyns var. Sá texti ku hafa komið frá Brussel og var nokkur gleðiyfirlýsing yfir því að nú væri komið vel á veg með að aðlaga stjórnkerfið á Íslandi (Forseti hringir.) að því sem það þyrfti. Því verður þess vegna ekki á móti mælt að þetta gæti verið tenging.