139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna sem hefur verið hér í dag. Hún hefur verið lífleg og efnisrík í alla staði og hafa verið fluttar hér margar mjög góðar ræður.

Það sem mig langar að byrja á í minni ræðu er að velta upp þeirri spurningu sem verið hefur hér í gangi um hvort þetta feli í sér aukið foringjaræði eða hvort þetta sé til þess fallið að draga úr því. Það liggur alveg fyrir að áhrif þessarar lagabreytingar eru að færa vald frá Alþingi Íslendinga til forsætisráðherra hverju sinni, hver svo sem gegnir því embætti. Það gengur þvert gegn pólitískri umræðu og niðurstöðum sem m.a. birtust í opinberum skýrslum sem fram hafa komið allt frá bankahruninu 2008. Menn töluðu einmitt um að eitt af því sem hefði valdið bankahruninu hefði verið foringjaræðið.

Mín skoðun er sú að nái þessi lög fram að ganga geri þau íslenskt stjórnkerfi óskýrara og vinni gegn gagnsæi. Ég get tekið eitt dæmi um áhrif þessara breytinga: Þann tíma þegar uppi voru áform fyrrum forsætisráðherra vorið 2007 um að færa Íbúðalánasjóð frá félagsmálaráðuneyti til fjármálaráðuneytis. Ef frumvarpið sem nú er til umræðu hefði verið orðið að lögum hefði andstaða þáverandi félagsmálaráðherra við tilflutninginn ekki dugað ein og sér til að koma í veg fyrir að þessari stærstu opinberu lánastofnun almennings hefði verið fórnað á altari einkavæðingar í aðdraganda bankahrunsins. Áformin ganga þvert gegn þeim varnaðarorðum sem höfð eru uppi í rannsóknarskýrslu Alþingis og víðar um áhrifaleysi Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er mjög víða vikið að því í einmitt þessari skýrslu og það hefur verið mjög í umræðunni hér, sérstaklega hefur hæstv. forsætisráðherra fjallað mjög loðið um það með hvaða hætti þetta frumvarp sé einhvers konar afurð rannsóknarskýrslu Alþingis, að einmitt vegna rannsóknarskýrslu Alþingis liggi svo gríðarlega mikið á að færa þetta sem Alþingi hefur haft undir höndum inn á borð til forsætisráðherra, þ.e. að geta hverju sinni ákvarðað það út frá geðþótta hvernig þessum málum skuli háttað.

Mig langar að vitna örlítið til rannsóknarskýrslu Alþingis og ekki síður skýrslu þingmannanefndar um rannsóknarskýrsluna. Það var mikill samhljómur meðal fulltrúa allra flokka í þeirri nefnd um það sem sneri að þessum málum. Þegar kemur að stjórnsýslunni er komið inn á það sem ég ætla að vitna beint í, með leyfi frú forseta, að í verklagi stjórnsýslunnar „skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra“. Jafnframt segir:

„Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Í ljós kemur að upplýsingaskylda ráðuneyta og stofnana, innbyrðis og út á við, virðist ekki hafa verið virk né heldur frumkvæðisskylda, gagnsæi og rekjanleiki.“

Aðeins neðar segir um stjórnsýsluna:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn.“

Einhver gæti ætlað að þarna væri verið að fjalla um Icesave en svo er ekki. Svo heldur áfram, með leyfi frú forseta:

„Slíkt verklag er óásættanlegt. Ljóst er að ráðherraábyrgðarkeðjan slitnaði eða aflagaðist í aðdraganda hrunsins og ráðherrar gengu á verksvið hver annars, t.d. þegar fagráðherrar voru ekki boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið. Ábyrgð og eftirliti fagráðherra með sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneyti þeirra heyrðu virtist verulega ábótavant.“

Raunar er víðar hægt að grípa niður í bæði rannsóknarskýrsluna sjálfa og skýrslu þingmannanefndarinnar hvað þetta snertir en ég sé ekki að í því frumvarpi sem nú liggur fyrir sé stigið skref til að bregðast við nokkrum þeim hlut sem þarna kemur fram, að færa þetta vald frá Alþingi til forsætisráðherra, að forsætisráðherra hafi það í hendi sér hvernig þessu sé háttað. Ég sé ekki að þetta sé skref í rétta átt.

Við getum líka velt fyrir okkur tilurð þessa frumvarps og hvort fylgt hafi verið eftir a.m.k. því sem er kynnt fyrir nýjum þingmönnum sem ekki hafa setið hér á þingi áratugum saman, þ.e. hvernig eigi að vinna að undirbúningi og frágangi lagafrumvarpa. Um það hefur verið gefin út ágætishandbók, m.a. af forsætisráðuneytinu, og í henni er mjög ítarlega farið yfir það hvernig eigi að standa að lagasetningu í veigamiklum og stórum málaflokkum. Þar er tilgreint ákveðið ferli um hvernig eigi að vinna að þessu, í fyrsta lagi hvort ný lagasetning sé nauðsynleg, að menn spyrji sig hvort hún sé nauðsynleg og leiti svara við því, ekki samkvæmt geðþóttaákvörðunum heldur úti í samfélaginu, atvinnulífinu, meðal almennings og víðar hvort það sé nauðsynlegt að breyta lögum í eina átt eða aðra eða setja ný lög. Það er spurning sem við hljótum að velta fyrir okkur með þetta frumvarp. Er þessi löggjöf nauðsynleg? Ekki er hún til þess að bæta úr út frá rannsóknarskýrslu Alþingis.

Síðan er það samning frumvarpsins, samráð við undirbúning og gerð frumvarpa, pólitískt samráð, faglegt samráð milli ráðuneyta, samráð við hagsmunaaðila og almenning, almennt mat á áhrifum, afleiðingar fyrir hagsmunaaðila, afleiðingar fyrir tiltekna mikilvæga almenna hagsmuni, atriði sem lúta að framkvæmd laganna o.fl.

Maður hlýtur að spyrja sig hvort þessi handbók hafi ekki verið höfð uppi meðal þeirra sem sömdu það frumvarp sem við ræðum. Þegar maður skoðar einstaka þætti þess ítarlega, sem ég hef ekki gert, sér maður marga punkta í því þar sem vikið hefur verið í veigamiklum atriðum út frá þeim reglum sem settar hafa verið.

Menn hafa líka velt því upp í umræðunni í dag hvort þetta tengist því að leggja niður einhver ákveðin ráðuneyti eða breyta þeim. Við höfum fylgst með því að það hefur verið mikið kappsmál, sérstaklega hæstvirtum forsætisráðherra, að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Við munum hvernig umræðan var um þau mál, frumvarp sem þá kom inn, bókun, og það lá ljóst fyrir að ekki var þingmeirihluti fyrir því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og því var kippt út á síðustu metrunum. Því hljóta menn að velta fyrir sér hvort hæstv. forsætisráðherra leggi þetta frumvarp hér fram með það að markmiði að hægt sé að ráðast í breytingar á ráðuneytunum án þess að Alþingi Íslendinga, sem lýsti andstöðu sinni við þetta, geti rönd við reist. Alþingi Íslendinga lýsti andstöðu sinni við það að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið — hvernig? Jú, meiri hluti Alþingis tók út þann kafla sem sneri að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ég veit ekki með hvaða hætti Alþingi Íslendinga getur lýst meiri andstöðu við eitthvað en að hlutirnir séu einfaldlega bara þurrkaðir út úr frumvarpi.

Eina leiðin til að ná því markmiði í dag er að Alþingi Íslendinga samþykki það eða að forsætisráðherra sé veitt algjört vald yfir því hvernig þessum málum sé háttað. Það er einmitt það sem þetta frumvarp gerir, að hægt sé að gera það sem Alþingi Íslendinga hafnaði síðast þegar þessi mál voru til umræðu.

Af hverju er nokkrum svona gríðarlegt kappsmál að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið? Af hverju virðist það vera eitt stærsta mál, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra, að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið? Það liggur ljóst fyrir að stjórnarandstaðan er mótfallin því, það liggur ljóst fyrir að mikill hluti Vinstri grænna er mótfallinn því, það liggur ljóst fyrir að þeir einstaklingar, þau fyrirtæki og þeir aðilar sem starfa í þessum atvinnugreinum eru mótfallnir því. Hvað býr þarna að baki?

Það hefur komið fram. Maður getur velt því fyrir sér en það hefur komið fram. Er það kannski af því að sá sem gegnir þessu embætti í dag rekst ekki nægilega vel þegar kemur að þessum málaflokkum? Eða þarf kannski að veikja þessar atvinnugreinar vegna þess af hve mikilli einurð þeir einstaklingar hafa talað gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og hafa lýst því yfir að þeir séu ekki tilbúnir til að taka þátt í því aðlögunarferli sem hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra gera kröfu til að þessar atvinnugreinar ráðist í?

Það er a.m.k. einkennilegt þegar maður horfir upp á pappíra sem verið hafa í umræðunni í dag, pappíra sem eru samdir af embættismönnum í Brussel, pappíra sem var ætlunin að íslenskir þingmenn skrifuðu undir, það er einkennilegt að inn í þá pappíra rati ályktanir þess efnis að mikilvægt sé að sameina hér ráðuneyti og að það sé liður í ESB-umsókninni. Af hverju er Evrópusambandið að skipta sér af þessu? Getur það verið af því að í þessum sama pappír stóð einmitt að mikilvægt væri að ráðast í breytingar á stjórnsýslunni og breytingar á landbúnaðarkerfinu og sjávarútvegskerfinu áður en þessu aðildarferli lýkur? Og getur verið að það tengist því jafnvel eitthvað að í síðustu stöðuskýrslu sem kom frá Evrópusambandinu lýsti Evrópusambandið miklum áhyggjum yfir því hversu hægt Íslendingum gengi að vinna að undirbúningi breytinga á stjórnsýslu í landbúnaði og sjávarútvegi? Getur verið að þetta sigli allt í strand ef allir láta ekki teymast með? Þá held ég að menn þurfi eitthvað að setjast niður.

Það liggur ljóst fyrir að eina leiðin til að leggja þessi ráðuneyti niður í dag er sú að Alþingi Íslendinga komist að þeirri niðurstöðu að ráðuneytin skuli lögð niður eða að hæstv. forsætisráðherra sé samkvæmt þessu frumvarpi veitt heimild til að ráðast í slíkt. Ég vil nú bara segja að það liggur ljóst fyrir að hvað þessi mál snertir að það er ekki einungis stjórnunarsviðið, það eru líka margir innan raða Vinstri grænna sem hafa lýst yfir miklum stuðningi við það að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið starfi hér áfram. Mig langar að vitna til aðalfundar svæðisfélags VG á Miðsuðurlandi sem var haldinn 15. apríl. Þar segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Stjórn svæðisfélags VG á Miðsuðurlandi vill ekki að áform um sameiningu ráðuneyta sjávarútvegs- og landbúnaðarmála annars vegar og ráðuneyti iðnaðar hins vegar sé til umræðu á meðan að fram fara aðildarviðræður við Evrópusambandið. Mikið álag er á stjórnkerfinu öllu vegna umsóknarferlisins og sameining ráðuneytanna á meðan á umsóknarferlinu stendur mundi leiða til enn aukins álags með tilheyrandi hættu á mistökum og yfirsjónum þegar kemur að því að tryggja hagsmuni okkar Íslendinga. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er hvattur til að verja hagsmuni undirstöðuatvinnugreina þjóðarinnar gagnvart Evrópusambandinu áfram af sömu einurð og hingað til.“

Með sama hætti er hægt að vitna til flokksráðssamþykkta Vinstri grænna o.fl. Það liggur ljóst fyrir að þessi gríðarlega andstaða í það minnsta eins ráðherra við það ferli sem hæstv. forsætisráðherra og Samfylkingunni er kærast nýtur fulls stuðnings. Hún nýtur fulls stuðnings meðal flokksstofnana flokksins, hún nýtur fulls stuðnings meðal kjósenda, en samt sem áður verður í þágu hinnar heilögu vegferðar að víkja ráðherranum í burtu. Það er jafnframt mikilvægt samkvæmt þessu ferli og miðað við þá pappíra sem liggja fyrir frá Evrópusambandinu að sameina ráðuneytin og þá hlýtur maður að velta fyrir sér tilganginum með þessu öllu saman. Hver er tilgangurinn með þessu frumvarpi? Hann er ekki sá að bregðast við rannsóknarskýrslu Alþingis. Engin haldgóð rök hafa komið fram í málinu í dag. Getur það verið nokkuð annað en þetta? Ég spyr mig og ég veit að margir spyrja sig þess sama. Það er ekki að ástæðulausu sem þessi umræða hefur dregist hér á langinn.

Væri ekki nær að við ræddum þau mál og þau verkefni sem blasir við að brenna á hverjum einasta Íslendingi? Skuldamál heimilanna, atvinnumál og fleiri verkefni sem raunverulega snerta hag hins almenna borgara og hag fyrirtækja. Það er það sem ég hefði talið réttast. Þess í stað erum við hér í einhvers konar leik, við erum í einhvers konar vegferð, hluta af heilagri vegferð hæstv. forsætisráðherra sem fátt virðist komast að hjá annað en að mikilvægt sé að efla hér miðstýringu í stjórnsýslunni. Ég leggst alfarið gegn því og hvet alla til að gera slíkt hið sama.