139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Aðeins að fyrri spurningu hv. þingmanns sem snýr að því hvort við séum hér að einbeita okkur að þeim málum sem mestu skipta. Ég held að rannsóknarskýrsla Alþingis hafi skipt mjög miklu máli og það að henni fylgdu breytingar í vinnubrögðum og á hugarfari. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það sé mikilvægt að vinna úr því hvernig við breytum hér vinnubrögðum, sérstaklega hvað varðar aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.

Hins vegar vil ég minna á, og það var það sem ég ætlaði koma inn á í fyrra andsvari, að heppilegast hefði verið að vinna áfram með það sem sneri þá að þessum stjórnarráðsbreytingum á þverpólitískum grunni.

Í mínum huga er það ekki ákvörðunarvald meiri hluta hverju sinni hvernig hann breytir stjórnskipaninni, það er gríðarlegur kostnaður og fleira sem fylgir þessu. Það er eðlilegt að svona breytingar séu unnar á þverpólitískum grunni, þær séu komnar til að vera og það sé ekki (Forseti hringir.) verið að hringla með þetta fram og til baka dag frá degi.