139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og fagna þeim í sjálfu sér. Það er einmitt þessi pólitíska staða málsins sem er mér dálítið mikið íhugunarefni vegna þess að við erum að tala um heildarlöggjöf um Stjórnarráð Íslands.

Þegar farið er í slíka lagasetningu hefur jafnan verið reynt að vanda til og það hefur líka jafnan verið leitað einhvers pólitísks samkomulags. Það hefur ekki verið gert núna, ekki einu sinni innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Þar er fullkominn pólitískur ágreiningur og þar eru miklir fyrirvarar þannig að mér sýnist sem tekin hafi verið um það ákvörðun á æðstu stöðum í ríkisstjórninni að fara með þetta frumvarp í einhvers konar pólitíska óvissuferð sem enginn veit hvert er heitið, hvernig lýkur eða hvernig þessu frumvarpi reiðir af. Það er bara eitthvað sem kemur þá á daginn. Við þekkjum það í gegnum tíðina að oft er frumvörpum breytt en það er ekki þannig með þetta mál. Því er bara kastað hérna inn í einhverri óvissu, þetta mál (Forseti hringir.) er á leiðinni í mikla pólitíska óvissuferð.