139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki eins miklar áhyggjur og hv. þingmaður af foringjaræði eða einræði hæstv. forsætisráðherra, ég sé eiginlega ekki hvernig það getur virkað. Ef hæstv. forsætisráðherra dytti í hug að breyta ráðuneytum út og suður eins og margir virðast hafa áhyggjur af yrði það ekki samþykkt í hæstv. ríkisstjórn, hver sem hún yrði á hverjum tíma. Mér finnst menn því vera of skelkaðir yfir þessu, halda að þetta gerist á þann veg að ef hæstv. forsætisráðherra vaknar einn daginn og vilji fækka ráðuneytunum í fimm þá sé það bara gert þann daginn. Þetta virkar ekki þannig og ég hef því ekki eins miklar áhyggjur og hv. þingmaður af þessu. (Gripið fram í.) Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki allar þessar hættur því að auðvitað mundi viðkomandi hæstv. forsætisráðherra aldrei komast upp með það á þeim tíma.

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði, þannig að það fari ekki á milli mála, að ég er mikill andstæðingur þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði sameinað iðnaðarráðuneytinu og búið til eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það er hlutur sem ég hræðist mjög mikið og má alls ekki gerast.