139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það vöknuðu hjá mér nokkrar spurningar sem mig langar að beina til hv. þingmanns. Hann velti því upp hvenær frumvörp væru stjórnarfrumvörp og hvenær ekki. Nú hefur hv. þingmaður umfram þann sem hér stendur að hafa gegnt starfi ráðherra í fyrri ríkisstjórnum. Hvað metur hv. þingmaður að sé fólgið í því að frumvarp sé stjórnarfrumvarp? Hver er skilgreiningin í hans huga á því að frumvarp sé stjórnarfrumvarp? Felur sú skilgreining í sér að það njóti meirihlutastuðnings á Alþingi? Felur hún í sér að allir ráðherrar styðji það? Felur hún í sér að báðir flokkar styðji frumvarpið? Gott væri ef hann gæti aðeins farið yfir þetta.

Önnur spurning sem mig langar að beina til hv. þingmanns snýr að sameiningu ráðuneyta almennt. Við vitum að eftir slíkar sameiningar líður töluvert langur tími áður en ráðuneytin fara að fúnkera. Hversu langan tíma telur hv. þingmaður að slíkt geti tekið? Telur hann ekki eðlilegt í ljósi þess hversu umfangsmiklar breytingar eru fólgnar í því að sameina ráðuneyti að slíkt sé unnið þvert á flokka þannig að þetta sé ekki verkefni viðkomandi ríkisstjórna? Ríkisstjórnir koma og fara. Er ekki eðlilegt að það sé verkefni allra alþingismanna að koma að því að ákvarða ráðuneytaskipan í landinu?

Eftir umræðuna sem á undan er gengin og aðdraganda þessa frumvarps og hvernig það er unnið og hvað það felur í sér spyr ég í síðasta lagi hvort hv. þingmaður finni fyrir miklum meðbyr innan stjórnarandstöðunnar. Svo virðist af máli hæstv. forsætisráðherra að hún treysti á stjórnarandstöðuna. (Forseti hringir.) Finnur hann fyrir miklum meðbyr með málinu í nærumhverfi sínu (Forseti hringir.) innan Sjálfstæðisflokksins og víðar?