139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:59]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir úr þessum ræðustól að hann mundi leggja fram vantrauststillögu gegn sitjandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fagnaði hæstv. forsætisráðherra þeim tillöguflutningi. Hún fagnaði því að stjórnarandstaðan ætlaði loksins að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og krefjast þingkosninga og hún þakkað formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir að þétta raðir ríkisstjórnarflokkanna. Umræður um vantrauststillögu okkar Sjálfstæðismanna á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur voru um margt fróðlegar, en þegar niðurstaðan lá fyrir stóð á þeim fagnaðarlátum sem hæstv. forsætisráðherra talaði um þegar vantrauststillagan var boðuð. Hæstv. forsætisráðherra voru þá engar þakkir í huga gagnvart okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir að leggja tillöguna fram og mæla með henni.

Hvers vegna var það svo? Jú, ástæðan var sú að vantrauststillagan leiddi í ljós að nú er staðan þannig hér á Alþingi Íslendinga að einungis 32 þingmenn styðja ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún styðst því við minnsta mögulega meiri hluta alþingismanna. Naumara getur það nú ekki verið, ekki síst í ljósi þess að einn þeirra 32 alþingismanna var ekki kjörinn á þing fyrir hönd Samfylkingar eða Vinstri grænna, hv. þm. Þráinn Bertelsson tilheyrði stjórnarandstöðu í upphafi þessa kjörtímabils. Hann var kjörinn á þing fyrir Borgarahreyfinguna, sagði sig úr þeim flokki, var óbreyttur þingmaður, en gekk síðan til liðs við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Hans atkvæði við þessar aðstæður tryggir, að minnsta kosti um sinn, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur meiri hluta.

Sú staða sem upp er komin á þinginu þýðir að hver einasti þingmaður ríkisstjórnarflokkanna fer með neitunarvald í öllum þeim málum sem hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar leggja hér fram. (Forsrh.: Það var svoleiðis í viðreisnarstjórninni í 12 ár.) Slíkt stjórnarsamstarf, að minnsta kosti við þær aðstæður sem uppi eru núna, er hvorki sannfærandi né burðugt og með allt öðrum hætti en var á viðreisnarárunum — ég nefni það sérstaklega vegna frammíkalls hæstv. forsætisráðherra. Þá stóðu menn saman, þá var samhljómur á milli stjórnarflokkanna, en nú loga ríkisstjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin stafnanna á milli í stóru jafnt sem smáu.

Við þessar aðstæður skyldi maður ætla að hæstv. forsætisráðherra, verkstjórinn sjálfur, mundi nú reyna að bera klæði á vopnin og leggja sitt af mörkum til að ná fram sátt á milli stjórnarflokkanna. En annað hefur komið í ljós. Í stað þess að bera klæði á vopnin hefur hæstv. forsætisráðherra ákveðið að auka á ágreininginn innan ríkisstjórnarflokkanna. Hún velur stríðið í stað þess að stuðla að friði. Það hefur hæstv. forsætisráðherra gert með framlagningu þess frumvarps sem við ræðum hér, frumvarps til laga um Stjórnarráð Íslands.

Af hverju segi ég þetta? Ég held að það sé best að ég útskýri orð mín með því að tala bara um hlutina eins og þeir eru. Þetta frumvarp hæstv. forsætisráðherra, um Stjórnarráð Íslands, hefur það fyrst og fremst að markmiði að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr ríkisstjórn Íslands. Þó svo hæstv. forsætisráðherra hristi höfuðið og stjórnarliðar komi upp í ræðustólinn hver á fætur öðrum til að afneita því markmiði frumvarpsins er ljóst, og það blasir við þjóðinni og þinginu öllu, að mikill áhugi hefur staðið til þess, sérstaklega innan Samfylkingarinnar, að gera þá breytingu á ríkisstjórn Íslands að bola hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út úr ríkisstjórninni.

Þetta frumvarp, og það vita allir, er lagt fram til höfuðs hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og við vitum öll hvers vegna það er gert. Það er vegna þess að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki sætt sig við stefnu hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Hann hefur ekki treyst sér til að styðja það aðlögunarferli í Evrópumálum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og er annað en lagt var upp með þegar þingsályktunartillaga, um að sækja um aðild að Evrópusambandinu, var samþykkt hér á Alþingi. Þetta er markmiðið með frumvarpinu númer eitt, tvö og þrjú. Það er þess vegna sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýsti því yfir að þetta frumvarp væri lengsta uppsagnarbréf sem nokkur maður á Íslandi hefði nokkurn tímann séð.

Ég segi það og stend við það að það hefði þá verið heiðarlegra af hæstv. forsætisráðherra að viðurkenna að í frumvarpinu fælist uppsögn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það hefði verið heiðarlegra að nafngreina bara hæstv. ráðherra í frumvarpinu eins og venjulega er gert þegar mönnum er sagt upp störfum. Yfirmenn hafa venjulega kjark í sér til að nafngreina þá sem þeir hyggjast segja upp störfum. Það gildir nú annað um hæstv. forsætisráðherra sem ekki hefur einu sinni kjark til að viðurkenna það sem er augljóst öllum.

Það frumvarp sem við ræðum hér, um Stjórnarráð Íslands, er, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vék hér ágætlega að í sinni merku ræðu, auðvitað ekki stjórnarfrumvarp. Ég spurði hæstv. forseta Alþingis, þegar þetta mál kom fyrst á dagskrá hér fyrir páska, hvort um stjórnarfrumvarp væri að ræða. Ástæðan fyrir þeirri spurningu er sú að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lýst andstöðu sinni við frumvarpið. Hvers vegna ætli hann hafi gert það? Jú, það er bæði vegna efnisatriða frumvarpsins, en ekki síður vegna þess sem ég vék hér að áðan að frumvarpið er í eðli sínu hans eigið uppsagnarbréf.

Ekki þarf að lesa lengi þann stjórnskipulega litteratúr sem til er á Íslandi, hvort sem það er stjórnskipunarréttur Ólafs Jóhannessonar, Gunnars G. Schrams, eða annarra lögspekinga sem hafa látið sig stjórnskipunarrétt varða, til að verða það ljóst að samkvæmt öllum venjulegum mælikvörðum og almennum skilningi fólks á því hvað stjórnarfrumvarp er, þá uppfyllir þetta frumvarp til laga það ekki, einkum vegna þess að ríkisstjórnin stendur ekki heil að baki frumvarpinu. Það er ekki bara hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur beinlínis lýst andstöðu sinni við málið. Hæstv. innanríkisráðherra, flokksbróðir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði alvarlega fyrirvara við framlagningu málsins þegar það var afgreitt úr ríkisstjórn. Nú hefur komið í ljós að þingflokkur annars stjórnarflokksins, Vinstri grænna, hefur gert fyrirvara við frumvarpið í heild sinni að því er mér heyrist. Það er ekki skrýtið, vegna þess að hv. þingmenn Vinstri grænna eru með samþykktir flokksfélaga sinna á bakinu, sem eru sjö, þar sem mælt er gegn þeim sjónarmiðum sem fram koma í frumvarpinu.

Það liggur því fyrir að megn andstaða er innan stjórnarliðsins við það mál sem hér er verið að ræða og hæstv. forsætisráðherra landsins leggur ofuráherslu á að nái fram að ganga. Þetta finnst mér skrýtin ráðstöfun í ljósi þess að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, nýtur aðeins stuðnings 32 alþingismanna. Þegar menn telja og fara yfir það hverjir hafa gengið úr skaftinu, bara hvað þetta einstaka mál varðar, fyrir nú utan allt það sem áður hefur gengið á í ríkisstjórnarflokkunum, er alveg ljóst að strax á fyrstu stigum þessa máls er farið að fjara mjög undan frumvarpinu og undan hæstv. forsætisráðherra. Ég tala nú ekki um þegar menn velta því fyrir sér um hvað þetta mál snýst. Þetta er frumvarp um framkvæmdarvaldið á Íslandi, einn handhafa ríkisvaldsins. Það þætti saga til næsta bæjar að hæstv. forsætisráðherra skuli leggja fram heildarlög um starfsemi framkvæmdarvaldsins þegar fyrir liggur að ekki einu sinni öll ríkisstjórnin, og líklega ekki meiri hluti á þinginu, er reiðubúin að styðja þá stefnumörkun sem þar kemur fram. Hvað segir það um stöðu hæstv. forsætisráðherra hér á þingi?

Allt þetta mál er byggt á mjög veikum grunni eins og ég hef farið yfir og ekki finnst mér nú rökstuðningurinn fyrir því burðugur. Hér hefur verið nefnt af hálfu hæstv. forsætisráðherra að frumvarpið sé lagt fram til að koma til móts við sjónarmið sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis og í skýrslu þingmannanefndar sem hv. þm. Atli Gíslason fór fyrir.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að lýsa því fyrir mér og öðrum þingmönnum hvar hún finnur þeirri fullyrðingu stað, bæði í skýrslu þingmannanefndarinnar og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þessar skýrslur hef ég lesið spjaldanna á milli. Ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra bendi mér á þá kafla í þessum skýrslum tveimur sem renna stoðum undir það að leggja eigi í þá vegferð sem frumvarpið mælir fyrir um.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra að því í andsvari í dag hvort frumvarpið tengdist með einhverjum hætti aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og fékk þau svör að ég hefði fjörugt ímyndunarafl. Þetta frumvarp hefði ekki neitt með aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu að gera. En bíðum við. Ekki er nema tæp vika frá því sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins fundaði. Þar voru lögð fram drög að sameiginlegri ályktun íslenskra þingmanna og þingmanna Evrópuþingsins.

Í einum kafla þeirra ályktunardraga — og þau eru samin í Brussel, svo það sé tekið fram — er fjallað um möguleika Íslands til að uppfylla þær skyldur sem því ber að uppfylla til að geta orðið aðili að Evrópusambandinu. Í punkti 14 í þeim ályktunardrögum er því sérstaklega fagnað að uppi séu áform um stjórnsýslulegar endurbætur og þá sérstaklega sameiningu ráðuneyta. Það er auðvitað það sem þetta frumvarp gengur út á. Þegar maður les þessi ályktunardrög saman við frumvarpið er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að þetta tengist aðlögunarferli ríkisstjórnarinnar að Evrópusambandinu órjúfanlegum böndum. Ekki er hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu og það hefur ekkert með mitt fjöruga ímyndunarafl að gera.

Virðulegi forseti. Það er fjölmargt annað sem ég hefði viljað ræða hér um. Búið er að fara yfir fjölmarga efnisþætti frumvarpsins. Að lokum ætla ég að nefna einn þátt sem fram kemur í frumvarpinu, þ.e. XI. kaflann. Þar er fjallað um siðferðisleg viðmið starfsmanna Stjórnarráðs Íslands. Mér finnst það í raun kaldhæðni örlaganna að hæstv. forsætisráðherra sé að leggja til í þessu frumvarpi að sett séu siðferðisleg viðmið í starfsemi Stjórnarráðs Íslands. Færi nú ekki vel á því að hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn byrjuðu á því að virða þau lög og þær reglur sem gilda í landinu? Ekki er langt síðan hæstv. forsætisráðherra var dæmdur fyrir að brjóta jafnréttislög og hæstv. umhverfisráðherra fyrir að brjóta skipulagslög. (Forseti hringir.) Ég held að best færi á því að hæstv. ráðherrar virtu lög og reglur í landinu (Forseti hringir.) áður en þeir færu að setja starfsmönnum stjórnsýslunnar siðareglur.