139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því mati hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að með þessu frumvarpi væru völd framkvæmdarvaldsins aukin mjög á kostnað löggjafarvaldsins sem gengur einmitt þvert á það sem menn hafa, að því er ég taldi, sammælst um að vinna að. Má ekki í rauninni ganga svo langt að segja að með þessu frumvarpi sé verið að breyta öllum ráðherrum nema hæstv. forsætisráðherra í nokkurs konar aðstoðarráðherra? Það eina sem kemur fram í frumvarpinu er að það eigi að vera ákveðinn forsætisráðherra og hann geti síðan falið hinum ráðherrunum tiltekin verkefni og fært þau á milli eins og þurfa þykir. Þetta væri í rauninni orðið þá eins og Mjallhvít og dvergarnir sjö þar sem Mjallhvít getur falið dvergunum þau verkefni sem á þarf að halda hverju sinni.

Það kemur varla heim og saman við þær breytingar sem við höfum viljað gera á stjórnkerfi landsins og talið mikla þörf á. (Forseti hringir.)