139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var gott svar. Ég lít þannig á að það sem hæstv. ráðherra hafi raunverulega verið að boða sé að það geti tekist um þetta mál nýr pólitískur meiri hluti. Hæstv. ráðherra vísar til þess að nú sé málið komið á forræði þingsins og það sé þá þingið sem muni afgreiða það.

Það hefur komið fram að ekki er meiri hluti fyrir þessu máli á Alþingi, það er meiri hluti fyrir því að afgreiða málið öðruvísi og ég tek þessu boði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fagnandi. Þetta er tilboð um að við hin sem erum annarrar skoðunar en hæstv. forsætisráðherra reynum þá að ná annarri niðurstöðu í þessu máli. Ég ætla að lýsa því yfir fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins sem starfandi þingflokksformaður að við erum tilbúin til þessa samstarfs við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þá aðra þingmenn sem eru tilbúnir til að ganga í þetta mál með öðrum hætti.