139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það má sjá eitthvað jákvætt í öllum og ef hv. þingmaður hefði gefið mér smáfyrirvara hefði ég getað fundið til einhver jákvæð atriði til að nefna um Samfylkinguna eins og aðra. Það sem er áhyggjuefni við þetta frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands er að það er ekki til þess fallið að draga fram það jákvæða í Samfylkingunni eða öðrum. Þvert á móti, það er til þess fallið að ýta undir hið neikvæða.

Það er gamalkunnug setning að vald spilli og að algjört vald spilli algjörlega og því er þetta frumvarp einmitt svo mikið áhyggjuefni. Vegna þess að þegar valdinu er þjappað saman á einn stað er það ekki til þess fallið að draga fram það góða í viðkomandi heldur miklu frekar að ýta undir hið neikvæða.

Ég verð reyndar að gera þann fyrirvara að það getur vel verið að þetta gæti í sumum tilvikum hentað ágætlega. Sumar ríkisstjórnir gætu farið mjög vel með þetta vald og jafnvel, ef ríkisstjórn væri nógu góð, mundi það ýta undir skilvirkni frekar en hitt vegna þess að þá þyrfti ekki að verja jafnmiklum tíma í að hlusta á, hvað eigum við að segja, rangar skoðanir. En við getum ekki hannað kerfi sem gengur út á það að valdhafinn sé alltaf með réttu skoðanirnar og þurfi þar af leiðandi ekkert að hlusta á þær röngu. Við vitum ekki hvort valdhafi hverju sinni er með rangar skoðanir eða réttar, hvað þá í framtíðinni. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að kerfið sé til þess hannað að valdi sé dreift en líka að sérstaklega sé hugað að stöðu löggjafarvaldsins, hinna kjörnu fulltrúa, gagnvart framkvæmdarvaldinu.