139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur þá komið fram hér að ekki hefur verið haft samráð við framsóknarmenn hvað þetta snertir. Það kom fram í umræðunni í gær að ekkert samráð var haft við sjálfstæðismenn hvað þetta mál snertir heldur þannig að lítið fer fyrir því samráði sem talað er um og hefur verið kynnt mjög víða.

Af því að hv. þingmaður kom hér inn á hvað hæstv. innanríkisráðherra hefði sagt um þetta mál og fór síðan að ræða um hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þá brá manni nokkuð í gær þegar hæstv. landbúnaðarráðherra greindi frá því að hann hefði verið á fundi með samráðherrum sínum í Danmörku og vildi ræða þar landbúnaðarmál en þá hefði mikill vandi verið uppi og hringlandaháttur því að menn höfðu ekki hugmynd um hvar landbúnaðarmálin voru vistuð á þeirri stundu vegna mikilla breytinga.

Er hv. þingmaður ekki sammála því að þegar ráðist er í breytingar sem þessar þurfi að grundvalla þær mjög vel og vinna (Forseti hringir.) þær á lengri tíma og í sátt við alla?