139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að rifja upp, af því hv. þingmaður var að vísa til breytinga á lögum um Stjórnarráðið frá 2007, að í tíð núverandi ríkisstjórnar höfum við alloft fengist við breytingar á Stjórnarráðinu. (Gripið fram í.) Mér telst svo til að þetta sé fjórða frumvarpið sem hæstv. forsætisráðherra flytur sem felur í sér efnislegar breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Þar til viðbótar er einn eða tveir svokallaðir bandormar sem fela í sér afleiddar lagabreytingar, eins og gert er ráð fyrir að við tökum fyrir hér á eftir þegar þessari umræðu lýkur. Það hefur því ekki verið mikil ró í kringum lagasetningu um Stjórnarráðið síðustu missirin.

Rétt er að gerðar voru töluverðar breytingar 2007, en síðan hafa líka verið gerðar ýmsar breytingar. Sumar þeirra kunna að vera ágætar og þá er ég að tala um breytingarnar samanlagt frá 2007, aðrar eru þess eðlis að ég mundi alla vega vilja snúa til baka með þær og endurskoða, þar á meðal eru ákvæði, svo að ég segi það hér í ræðustól þingsins, frá 2007 sem ég tók þátt í að samþykkja. Ég er ekki frá því að sumt af því sem við samþykktum hefðum við betur látið ógert. Þá eigum við bara að taka það til endurskoðunar og breyta því. Það er hins vegar síðari tíma umræða og við getum skoðað það mál betur, en þetta er mín afstaða.